Staðan er grafalvarleg

Erfiðleikar botnfiskútgerðarinnar
Staðan er grafalvarleg
Er yfirskrift greinar eftir Örn Pálsson sem birtist í Fiskifréttum 12. apríl sl. 
Erfið staða bolfiskútgerðar undanfarna mánuði hefur ekki farið fram hjá neinum sem tengdir eru sjávarútvegi.  Mánaðarlegt verð á mörkuðum í ár hefur ekki verið lægra um langt árabil. Samantekt á verðum í mars 2013 og nú í ár sýnir þetta glöggt (sjá súlurit).
 

Screen Shot 2017-04-16 at 08.17.56.jpg

Skýring á því hruni sem samanburðurinn sýnir er ekki eingöngu styrking krónunnar, þar koma margir aðrir þættir einnig við sögu.  

Lokun Rússlandsmarkaðar
Helsta ástæða gríðarlegrar verðlækkunar á karfa er lokun Rússlandsmarkaðar.  Ákvörðunin um þátttöku Íslands í viðskiptabanni Vesturlanda var slæm og hefur kostað þjóðina milljarða. Verð á karfa á fiskmörkuðum er nú aðeins rétt rúmur þriðjungur af því sem það var fyrir fjórum árum.
ÖP úr Fiskifréttum.png
Auk karfans er verðlækkun á steinbíti einnig mjög sláandi. Verðið á steinbíti fyrir 4 árum var rúmlega þrefalt miðað við það sem hann selst á í dag.  Verðþróun á ýsu og ufsa er einnig áhyggjuefni.
Vottað í bak og fyrir 
Verðlækkun þorsks er ekki síður grafalvarleg, en þorskur ber uppi meginhluta alls aflaverðmætis eða 43,6% á árinu 2016.  
Í veiðum og vinnslu hefur allt verið gert til að uppfylla kröfur markaðarins.  Gæðin hafa þannig orðið enn meiri og þjónusta aukin. Kaupendur hafa krafist þess að hér sé allt vottað í bak og fyrir. Við því hefur verið orðið. 
Kaupendur hafa krafist þess að hér séu stundaðar ábyrgar og sjálfbærar veiðar.  Þá kröfu hafa þeir fengið uppfyllta.
Gleymdist að reikna það með?
Hvers vegna greiða þessir aðilar þá ekki hærra verð? Að standa undir öllum þeirra væntingum hefur kostað okkur gríðarlegar upphæðir. Gleymdum við nokkuð að reikna það inn í endanlegt verð þannig að kaupendunum yrði það ljóst að þeir fengju þetta ekki fyrir ekkert? Reiknuðu þeir ekki með því að fiskverð hjá okkur myndi hækka til að við gætum staðið undir þessum kostnaði?  Eitthvað hefur brugðist á þessari löngu leið.  
Útgerðin þarf að uppfylla aragrúa reglna til að fá leyfi til að gera út. Þegar á miðin er komið er eins gott að standa sig. Vanda sig við hvern fisk þannig að ekkert fari til spillis, landa öllum afla sem kemur inn fyrir borðstokk. Skiptir þar engu máli þótt um verðlausan fisk sé að ræða. Verði menn uppvísir að því að virða ekki þá reglu bíður þeirra veiðileyfissvipting.
Screen Shot 2017-04-15 at 14.25.26.png
Engar skyldur á hinum endanum
En hvernig er þetta á hinum endanum? Þarf leyfi til að selja aflann? Nei. Þess er ekki krafist. Allir mega bjóða þorsk á mörkuðum erlendis. Ég er þeirrar skoðunar að við verðum að hysja upp um okkur buxurnar á þessum endanum.  Þar er ekki síður vandlifað. Þar má ekki stíga nein feilspor. Hvert þeirra getur kostað okkur milljarða. Ég álít að þarna sé verk að vinna þar sem sjávarútvegsráðherra hafi frumkvæðið. Skipa starfshóp sem fer yfir þennan þátt hjá okkur og greinir hvað hægt sé að gera betur, þar með talin virðing fyrir þeim sem finna nýja markaði. Ekki að sletta í góm og segja – ef ég bíð ekki „betra verð þar þá gerir það einhver annar. Mér hefur jafnvel dottið í hug, vegna þeirra gríðarlegu hagsmuna sem eru undir hjá okkur, hvort komi til greina að lögvernda starfsheiti á þessu sviði. 
Hér er aðeins opnað á umræðu þetta mikilvæga málefni og þess óskað að sölu- og markaðsaðilar taki við boltanum og tjái sig. Hvað er til ráða?
Ekkert lát á auknum kostnaði
Þrátt fyrir lækkandi verð á bolfiski er ekkert lát á hreyfingum í hina áttina varðandi útlagðan kostnað að undanskildu olíuverði. Flutningskostnaður, eftirlitskostnaður, veiðarfæri, viðhald skipa, tryggingar og síðast en ekki síst yfirvofandi hækkun á veiðigjaldi.
Það er hlutverk útgerðarinnar að keyra þessa liði niður. Þeir aðilar sem stjórna verðlagningu þeirra verða að koma til móts við aðsteðjandi vanda.  
Breytt innheimta veiðigjalds
Breytingar sem gerðar voru á innheimtu veiðigjalds árið 2015 hafa virkað í þveröfuga átt. Í stað þess að hlutdeildarhafi greiddi gjaldið var þeim sem veiðir gert að greiða það. Ákvæðið átti m.a. að verða til þess að lækka kvótaverð og bæta stöðu þeirra sem þyrftu á meiri veiðiheimildum að halda en hlutdeild segði til um. Þvert á það sem ætlað var hækkaði kvótaverð og hefur gert stöðu þessara aðila nánast vonlausa. Breytingin hefur leitt til meiri samþjöppunar veiðiheimilda og þar með fábrotnari útgerðarflóru.  
Afsláttur á veiðigjöldum vegna vaxtakostnaðar á lánum sem tekin voru vegna kaupa á aflahlutdeild fellur úr gildi 1. september nk.  Koma verður til móts við áhrif þess með afslætti á veiðigjaldi til þeirra sem ekki hafa vinnslu á bakvið sig.  Þeirra staða er gríðarlega erfið og því nauðsynlegt lækka verulega veiðigjald hjá þeim, auk þess sem það myndi jafna aðstöðumun þeirra og útgerða sem jafnframt reka vinnslu.
Nú er svo komið að bátar liggja bundnir við bryggju á sama tíma og nóg er af þorski í sjónum. Því verðum við að breyta. Einhenda sér í verkefnið þar sem sjávarútvegsráðherra felur Alþingi að fjalla um frumvarp þessa efnis.   
Höfundur er framkvæmdastjóri 
Landssambands smábátaeigenda.