Strandveiðar hófust 18. júní 2009. Veiðarnar voru lögfestar í maí 2010 og frá þeim tíma hafa þær verið stundaðar í 4 mánuði ár hvert.
Veiðileyfi til strandveiða heimilar veiðar með handfærum 4 daga í viku hverri mánuðina maí til og með ágúst. Óheimilt er að stunda veiðarnar á föstu-, laugar- og sunnudögum, auk rauðra daga í almanaki.
Til strandveiða er áætlaður ákveðinn afli sem skipt er niður á hvert og eitt veiðisvæði sem eru fjögur, A, B, C, D.
Aflanum er deilt á hvern mánuð og eru veiðar stöðvaðar þegar aflaviðmiðun er náð. Hámarksafli í hverri veiðiferð má ekki fara umfram 774 kg af þorski eða 650 þorskígildi. Þá er aðeins heimilt að landa einu sinni á hverjum degi og má hver veiðiferð ekki vera lengri en 14 klst.
Þó aflaviðmiðun til strandveiða hafi aukist nokkuð frá upphafi nægir hún ekki til að hægt sé að stunda veiðarnar samfellt frá maí til og með ágúst. Á strandveiðum sem lýkur 31. ágúst nk. hefði ekki þurft að bæta mikið við afla sem ætlaður er til strandveiða til að komast hjá stöðvun veiða.
Á svæði D, þar sem bátar eru enn að veiðum nægði aflaviðmiðun í öllum mánuðum. Á svæðum B og C þurfti engar áhyggjur af stöðvun veiða að hafa fyrr en í ágúst, en þá var aflaviðmiði náð eftir 10 daga. Þessu horfði öðruvísi við á svæði A. Þar stöðvuðust veiðar í öllum mánuðum. Í maí voru dagarnir 13, 10 í júní og 8 hvorum mánaðanna júlí og ágúst.
Á yfirstandandi tímabili var fjöldi leyfilegra veiðidaga alls 227 og hafa þeir aldrei verið fleiri í sögu strandveiða. Helstu ástæður þess eru að færri stunduðu veiðarnar heldur en undanfarin ár og þá var aflaviðmiðun hækkuð sem varð til þess að dagar urðu fleiri í ágúst en að óbreyttu.
Sjá nánar um fjölda veiðidaga.pdf á hverju veiðisvæði.