Sjávarútvegsráðherra hefur ákveðið að framlengja bann við veiðum með dragnót um 2 mánuði. Veiðisvæðin sem hér um ræðir eru í fjörðum Vestfjarða, út af Ströndum, fyrir Norðurlandi, NA-landi og Austfjörðum.
Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í tveimur þessara reglugerða fellur bann við veiðum með dragnót úr gildi 31. ágúst nk. Með reglugerðum sem birtust í Stjórnartíðindum í dag er bannið framlengt til 31. október 2017. Sama á við 1. grein reglugerðar um bann við dragnótaveiðum fyrir Norðurlandi.
LS fagnar ákvörðun ráðherra og leggur áherslu á að bann við dragnótaveiðum á umræddum svæðum verði varanlegt. Þá er rétt að halda því til haga að enn eru ákveðin veiðisvæði innan fjarða og við ströndina opin fyrir dragnótaveiðum sem full ástæða er til að bæta við þau sem nú þegar eru lokuð.
Að sögn þeirra sem yrkja þessi mið hefur verulegur árangur orðið af lokuninni. Fiskgengd á svæðunum margfaldast og seiðagengd stóraukist.
Þá er það ekki síður mikilvægt að miðin næst landi séu eingöngu ætluð til nýtinga af smábátum sem veiða með kyrrstæðum veiðarfærum.
Athygli er vakin á að í tölvupósti frá ráðuneytinu kemur fram að framlenging veiðibanns sé markaður stuttur tími þar sem ráðherra er að skoða hvort þörf sé á breytingum.