„Makrílvertíðin hefur gengið svona upp á ofan eins og sjómaður orðaði það. Hér í Keflavík hefur stundum verið mok en aðra daga hefur makríllinn ekki látið sjá sig.
Síðustu 5 daga hefur engin veiði verið við Reykjanes.
Útaf Snæfellsnesi hefur veiði hins vegar verið jafnari. Þar hafa frekar erfiðleikar á afsetningu hamlað veiði. „Ótrúlegt að uppsjávarfyrirtækin sjái ekki tækifæri í að kaupa og vinna færaveiddann makríl. Makríll sem er í gæðum mun betri en trollveiddur, er haft eftir sjómanni á makrílveiðum fyrir vestan.
Makrílafli smábáta var í byrjun þessa dags kominn yfir 4.000 tonn. Fjólan GK hefur landað mestum afla 258 tonn, en skammt á eftir henni koma Andey GK og Brynja SH, en báðir bátarnir eru komnir með yfir 200 tonn, en allls 16 bátar hafa landað meira en 100 tonnum.
Alls hafa 52 smábátar hafið markílveiðar á þessari vertíð.
Heildarfjöldi skipa á veiðunum hins vegar 74 og er afli þeirra nú um 92 þúsund tonn. Á sama tíma í fyrra var aflinn hins vegar kominn í 122 þúsund tonn.