Eins og greint hefur verið frá samþykkti aðalfundur Snæfells fjölmargar tillögur til aðalfundar LS. Nokkrar af þeim voru afar róttækar og hafa ekki komið fram áður. Tvær þeirra ganga hvað lengst. Annars vegar að krókaaflamarksbátar fái leyfi til veiða með þorskanetum og hins vegar að LS vinni að því að krókaaflamark verði sameinað aflamarki.
Í umræðu um tillögurnar kom fram að megin áherslan fyrir þeim væri aðsteðjandi rekstrarvandi sem hlýst af mikilli hækkun á veiðigjaldi fyrir þorsk og ýsu. Á sama tíma og fiskverð hefur farið lækkandi er komin til framkvæmda á annað hundrað pró
senta hækkun á veiðigjaldi tegundanna.
Á fundinum voru grásleppumálin í deiglunni, enda veiðarnar gríðarlega mikilvægar fyrir félagsmenn Snæfells. Fundurinn samþykkti að hafin skildi vinna við kvótasetningu á grásleppu þ.s. viðmiðunarár verði að lágmarki sjö. Verði niðurstaðan sú að leggja til kvóta á grásleppuna verði greidd atkvæði um hana meðal eigenda grásleppubáta.
Fiskverð var einnig í brennidepli á aðalfundi Snæfells. Lofað var framtak Grundfirðinga um útflutning í ágúst sl. Jákvæður tónn um fyrirætlan LS um skipulagningu á sölu afla á erlenda markaði.
Samþykkt var að hvetja stjórnvöld til að kvótaívilnunar til þeirra sem landa á fiskmörkuðum.
Bann við veiðum á hvítlúðu kom upp á borð á fundinum. Samþykkt var óska eftir gögnum frá Hafrannsóknastofnun um þróun stofnstærðar frá því bannið kom til framkvæmda. Einnig var samþykkt áskorun um að leyfð verði löndun og sala á hvítlúðu sem veiðst hefur sem meðafli við línuveiðar.
Auk þessa var samþykkt að mótmæla harðlega hækkun veiðigjalda, strandveiðar verði heimilaðar 12 daga í mánuði, aukning línuívilnunar, áfram verði knúið á um 16% hlutdeild í heimildum til makrílveiða, öryggismál sjómanna, markaðsmál ofl.
Allar tillögur Snæfells 30 að tölu koma til umræðu á 33. aðalfundi Landssambands smábátaeigenda 19. og 20. október nk.
Aðalfundur Snæfells var vel sóttur og mikill hugur í félagsmönnum til að sækja fram af fullum þunga til aukinna veiðiréttinda til að jafna þann aðstöðumun sem nú ríkir meðal útgerðahópa í stjórnkerfi fiskveiða.