Grásleppuveiðar – MSC vottun afturkölluð

LS hefur verið tilkynnt að MSC vottun fyrir grásleppuveiðar hafi verið afturkölluð frá og með 4. janúar 2018.  Samkvæmt niðurstöðum skýrslu.pdf frá Vottunarstofunni Tún hefur komið í ljós að meðafli við veiðarnar er umfram viðmiðunarmörk í fjórum tegundum.  Að mati Túns ógna veiðarnar þannig tilvist þeirra.
Tegundirnar eru landselur, útselur, dílaskarfur og teista.  Vottunarstofan byggir niðurstöður sínar á útreikningum Hafrannsóknastofnunar frá upplýsingum úr afladagbókum og athugunum veiðieftirlitsmanna.  Þeir jafngilda að meðafli við grásleppuveiðar á vertíðinni 2017 hafi verið 16% af útselastofninum, 10% af stofni landsels, 17% af dílaskarfi og 20% af þeim fjölda teista sem stofninn telur.
LS vinnur nú að yfirferð á skýrslunni og gögnum henni tengdri til að hægt verði að leggja mat á hvað hægt er að gera í þeirri stöðu sem upp er komin.  Að svo stöddu er ekki hægt að leggja mat á hvaða áhrif upplýsingarnar hafa á grásleppuveiðar hér við land.
Í ástandsskýrslu Hafrannsóknastofnunar í júlí 2017 er lítillega fjallað um seli.  Þar segir m.a.:  
„Sex tegundir sela hafa fundist við Ísland en einungis tvær tegundir, landselur og útselur, kæpa hér við land að staðaldri.  
Í skýrslunni kemur fram að fjöldi landsela árið 2016 var 7.700.  Stofnstærð útsela hefur hins vegar ekki verið metin síðan 2012 en það ár samanstóð hann af 4.200 dýrum. 
Í ráðgjöf til stjórnvalda leggur Hafrannsóknastofnun til að leitað verði leiða til að koma í veg fyrir beinar veiðar á landsel og lágmarka meðafla. 
Samkvæmt upplýsingum frá Náttúrufræðistofnun Íslands telur skarfastofninn hér við land 44.000 fugla, þar af 26.000 dílaskarfa og fjöldi varppara teistu um 15.000.   
Vottunarstofan Tún annast vottun og eftirlit með sjálfbærum sjávarnytjum samkvæmt viðmiðunarreglum Marine Stewardship Council (MSC) 
16252088_1215556698531262_7452736848909600363_o2.jpg