Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fundaði með LS, fulltrúum MSC, Hafrannsóknastofnun og Fiskistofu sl. miðvikudag. Tilefnið var tilkynning Tún ehf um afturköllun MSC vottunar grásleppuveiða þann 4. janúar sl. Útselur, landselur og teista sem meðafli við veiðarnar hefðu fellt hana, fjöldi þessara tegunda fór yfir þau mörk sem staðall MSC heimilar.
Í upphafi bað ráðherra fundarmenn að kynna sjónarmið sín og hafa hugfast að þó þeir væru ósammála væri farsælast til árangurs að koma sér saman um aðgerðaráætlun.
Á fundinum var farið yfir stöðu mála útfrá sjónarmiðum hvers og eins. Fulltrúi MSC kynnti aðferðafræði samtakana við vottun, Hafrannsóknastofnun útskýrði skýrslu sína sem varð til þess að vottunin féll og LS greindi frá því hvers vegna félagið krefðist þess að skýrsla Hafrannsóknastofnunar yrði dregin til baka og rangfærslur og útreikningar leiðréttir.
Gagnrýni LS snýr helst að uppreikningi Hafrannsóknastofnunar á meðafla úr skýrslum veiðieftirlitsmanna Fiskistofu. Þar skorti á að tekið væri tillit til útbreiðslu dýra, tímabils sem mælingar fóru fram á, dýpi á veiðislóð og fjölda leyfa á hverju svæði.
Þannig að lesendur fái betri innsýn í það sem LS gagnrýnir er rétt að líta á teistuna.
Alls var unnið úr 115 skýrslum veiðieftirlitsmanna Fiskistofu á árunum 2014 – 2016. Alls veiddust í þeim 307 fuglar, þar af 71 teista.
Útreikningar Hafrannsóknastofnunar gerðu ráð fyrir að sami fjöldi væri veiddur í þeim sjóferðum sem ekki hefði verið mælt úr, þrátt fyrir að úrtakið hefði aðeins verið um 1%. Þá væri alfarið horft fram hjá því að teista kæmi aðeins í net sem lögð eru grynnra en 15 metrar, en 80% grásleppuneta væru lögð dýpra og ættu því ekki að koma til greina við útreikninga.
Einnig er rétt að benda á að við fyrstu mælingu á teistu sem meðafla 2014, voru uppreiknaðar 3.568 teistur út frá 44 teistum. 2016 tölurnar sem fella teistuna eru 998, uppreiknaðar frá 16 fuglum. 13 af þeim veiddust fyrir Vesturlandi á grunnsævi þar sem 23% veiðinnar var.
Á fundinum ítrekaði LS kröfu sína um að Hafrannsóknastofnun mundi endurskoða skýrsluna á grunni nýrra upplýsinga sem komið hefðu fram.
Í lok fundar þakkaði ráðherra viðstöddum fyrir góða kynningu á viðfangsefninu og hvatti þá um leið til þess að ná saman um lausn í málinu.
Ljóst er að hraða þarf þeirri vinnu sem framundan er þar sem aðgerðarplan verður að liggja fyrir eigi síðar en 90 dögum (4. apríl) eftir að vottunin var felld úr gildi.