MSC vottun – LS hafi ekki frumkvæði

Grásleppunefnd LS kom saman til fundar í gær og ræddi helstu málefni sem lúta að umhverfi grásleppukarla.  Þar bar hæst afturköllun MSC vottunar grásleppuveiða þann 4. janúar sl.  
Umræða varð snörp um þennan dagskrárlið, einkum skýrslu Hafrannsóknastofnunar sem lögð var til grundvallar hjá Vottunarstofunni Tún við ákvörðun um áframhaldandi vottun.  Skýrslan væri virtri vísindastofnun til vansa.
Þá gagnrýndi nefndin vinnubrögð vottunarstofunnar, telja að þar á bæ hafi aðilum láðst að spyrja gagnrýnna spurninga.  Þá hafi þeir orðið uppvísir, þrátt fyrir fullyrðingar um annað, leitað út fyrir skýrslu vísindastofnunarinnar.   Þar er átt við skýrslu bresku fuglafriðunarsamtakanna Birdlife þar sem uppreiknaður fjöldi slysaveiddra skarfa í grásleppunet á vertíðinni 2016 var um þrítugfaldur miðað við skýrslu Hafrannsóknastofnunar.  
Unknown (1).jpg
Á bak við matsferlið er MSC – Marine Stewardship Council.  Samtökin hafa haslað sér völl í vottun fiskveiða og náð góðri áheyrn hjá innkaupastjórum í stórverslunum um að MSC vottun sé viðurkenning á sjálfbærni.  Að veiðar hafi ekki skaðleg áhrif á einstaka fiski- og dýrastofna.  Afleiðingar hafa orðið þær að verslunarkeðjur, einkum í Bretlandi, Þýskalandi og Svíþjóð hafa sett sem skilyrði fyrir innkaupum að innihald vörunnar hafi fengið MSC vottun.  Þar vegur mest að í kynningarstarfi MSC er fullyrt að neytendur gangi á auðlindir hafsins kaupi þeir sjávarfang sem ekki er merkt MSC. 
Samþykkt grásleppunefndar LS
Grásleppunefnd er andvíg því að LS hafi frumkvæði að aðgerðaráætlun til að endurheimta MSC vottun grásleppuveiða.  Nefndin telur að vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið við vottunarferlið sé íslenskum grásleppusjómönnum ekki samboðin.  Grásleppuveiðar í atvinnuskyni hafa verið stundaðar með sama hætti í áratugi.  Grásleppusjómenn bera virðingu fyrir náttúrunni og staðráðnir í að skila góðu búi til komandi kynslóða.   Hafrannsóknastofnun veitir árlega ráðgjöf um heildarafla sem farið er eftir með ákvörðun um fjölda veiðidaga.  Veiðimagn hverrar vertíðar er undir vísindalegri ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar og fjöldi veiðidaga hverju sinni ákveðinn m.t.t. þess að afli fari ekki umfram tillögu hennar.