Strandveiðar – frumvarp um 12 daga í mánuði

Lagt hefur verið fram frumvarp á Alþingi um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða (strandveiðar).   Þar er lagt til að veiðidagar verði 12 í hverjum strandveiðimánuði (maí – ágúst).  
Frumvarpið er frá atvinnuveganefnd þingsins og er gert ráð fyrir að það verði að lögum áður en strandveiðar hefjast þann 2. maí nk.  
Hér er um mikla breytingu að ræða frá fyrra fyrirkomulagi þar sem öllum bátum á strandveiðum eru tryggðir 12 dagar í maí, júní og júlí.  Fjöldi daga í ágúst verða að hámarki 12, en Fiskistofa hefur heimild til að stöðva veiðar ef sýnt þykir að heildarafli fari umfram það sem ætlað er til strandveiða á árinu.
Einnig er í frumvarpinu ákvæði sem heimilar strandveiðibátum að landa ufsa sem VS-afla.  Sá afli mun þá ekki teljast til viðmiðunar inn í hámarksafla til strandveiða.
Hér er um bráðabirgðaákvæði við lög um stjórn fiskveiða sem gildir aðeins á árinu 2018.  Verði reynsla hins vegar góð af þessari tilhögun má búast við að um varanlega breytingu verði að ræða. 

IMG_3935 (1).jpg