Strandveiðum ætlað 0,68% af stofnstærðinni

Stjórn Smábátafélags Reykjavíkur fundaði í lok mars sl. um framkomið frumvarp á Alþingi um breytingu á lögum varðandi strandveiðar.
Stjórnin vill þakka þeim alþingismönnum og ráðherrum sem hafa undanfarið sýnt vilja til að bæta núverandi strandveiðikerfi. Það hefur sjaldnast verið raunin síðan það var sett á laggirnar árið 2009. 
Nýliðun fer vaxandi

Frá því stofnað var til strandveiðikerfisins hefur það reynst stórlega gallað og aðeins að hluta til fullnægt þeim markmiðum og fyrirheitum sem því var ætlað. Annað hefur tekist betur.  Nýliðun hefur til skamms tíma verið talin minni en vonir stóðu til og því óspart hampað af andstæðingum strandveiðikerfisins. Ný skýrsla Háskólans á Akureyri um strandveiðikerfið bendir til að nýliðunin fari vaxandi. Það er gleðiefni og hvatning fyrir ráðamenn.
Reykjavík copy.jpg
Þras og þrætur um handfæraveiðar

Stjórn Smábátafélags Reykjavíkur telur brýnast að vega og meta hvort framkomið frumvarp sé skref í átt að þeirri grundvallarkröfu Landssambands smábátaeigenda, að handfæraveiðar smábáta verði gefnar frjálsar.
Það er með ólíkindum að Ísland, sem er meðal 15 ríkustu þjóða heims, skuli vera slík nánös þegar kemur að fiskveiðum að stjórnvöld telja hvað brýnast að setja belti, axlabönd, fótkúlur og spennitreyjur á þá sem stunda veigaminnstu og umhverfisvænustu veiðarnar – handfæraveiðar á smábátum. Veiðarnar sem lögðu grundvöllinn að flestum ef ekki öllum sjávarbyggðum landsins. Sl. þrjá og hálfan áratug hefur löggjafarsamkoma þjóðarinnar eytt ómældum tíma í þras og þrætur um hlut og hlutskipti þessara veiða.      
Óviðunandi afkoma

Strandveiðikerfinu voru á árinu 2017 (maí-ágúst) ætluð 9.200 tonn af óslægðum botnfiski. 594 bátar sóttu um strandveiðileyfi og því gat hver bátur veitt að meðaltali 15,5 tonn. Það þarf enga kjarnorkueðlisfræðinga til að sjá að stór hluti þessa hóps er ekki að ríða feitum hesti frá slíkri vertíð. Til að bæta gráu ofan á svart hefur fiskverð á uppboðsmörkuðum hríðfallið undanfarin ár.
Frjálsar handfæraveiðar – pólitískar ákvarðanir 

Séu þessi 9.200 tonn sett í samhengi, þá mældi Hafrannsóknastofnun veiðistofn þorsks árið 2017 (tegundina sem strandveiðimenn veiða nánast alfarið) tæp 1.356 þúsund tonn. 
9.200 tonn eru samkvæmt því 0,68% af stofnstærðinni. Skekkjumörk fiskifræðinnar eru margföld í þessu samhengi. Væru veiðiheimildir strandveiðimanna margfaldaðar, myndi það engu breyta í því samhengi.  
Því er ljóst að tregða stjórnvalda til að gefa handfæraveiðar smábáta frjálsar hefur ekkert með fiskifræðileg rök að gera. Um er að ræða pólitískar ákvarðanir um hverjir skuli lifa og deyja innan kerfisins. Tilvísanir í aflareglu Hafrannsóknastofnunar eru beinlínis hlálegar: hvaðan kemur sú viska að núgildandi aflaregluprósenta sé byggð á bjargi, frekar en sandi?   
Í frumvarpi því sem hér um ræðir segir að um eins árs tilraun sé að ræða. Einnig hefur komið fram að bæta eigi allt að 2.000 tonnum við heildarpottinn. Það er vel, en á þessu eru megin gallar.
Annars vegar er landið orðið eitt strandveiðisvæði þegar litið er til leyfilegs afla, á sama tíma og því er áfram skipt í þau fjögur veiðisvæði sem gilt hafa frá upphafi varðandi lögheimili bátseigenda. Betri leið til að valda úlfúð meðal strandveiðimanna er vandfundin.
Strandveiðigæði copy.jpg
12 dagar í mánuði hrein og klár tálsýn

Þá er sú framsetning að öllum bátum í kerfinu séu tryggðir 12 dagar í mánuði hrein og klár tálsýn.  Dögunum sem þeir hafa úr að velja fjölgar ekkert og því mun sóknarmunstrið breytast mun minna en margur hyggur, hugsanlega lítið sem ekkert. 
Það væri alveg eins hægt að setja í lög að tryggt verði að vel muni viðra til róðra 48 sinnum af þeim 68 dögum sem menn hafa úr að spila sumarið 2018. 
Til þess þurfa þeir að ná yfir 70% nýtingu dagafjöldans. Það hefur aldrei gerst frá upphafi strandveiða og það veit hvert mannsbarn sem þekkir til sjósóknar á smábátum að er með öllu útilokað.         
Dögum sem velja má úr verði fjölgað

Stjórn Smábátafélags Reykjavíkur skorar á stjórnvöld að gera eins árs tilraun, eins og frumvarpið snýst um, þar sem strandveiðimönnum eru tryggðir 12 dagar í mánuði hina 4 mánuði strandveiðivertíðarinnar, dögunum fjölgað sem þeir mega velja úr og kanna að tímabilinu loknu hvernig til tókst.
Að því gefnu að þau fyrirheit sem flogið hafa fyrir, m.a. í fjölmiðlum hvað þetta varðar, leggst stjórn Smábátafélags Reykjavíkur ekki gegn frumvarpinu. Strandveiðimenn hafa litlu sem engu að tapa. Baráttunni fyrir frjálsum handfæraveiðum smábáta er hvergi nærri lokið!  
Reykjavík, 5. apríl 2018
Stjórn Smábátafélags Reykjavíkur