Árborg vill lengja strandveiðitímabilið

Árborg – félag smábátaeigenda á Suðurlandi blés til aðalfundar þann 18. september sl.  Stefán Hauksson formaður félagsins hóf ávarp sitt með því að þakka fyrrverandi formanni síðastliðinna 25 ára, Þorvaldi Garðarssyni, fyrir farsælt starf í þágu smábátaútgerðar og Árborgar.
Stefán sagði starf félagsins að mestu hafa snúist um veiðigjöld, strandveiðar og landhelgina. 
 
Veiðigjöld á þorski og ýsu væru orðin afar íþyngjandi og ekki í nokkrum takti við það verð sem fengist fyrir þær tegundir.  Leiðrétting væri af þeim sökum sjálfsögð og með ólíkindum að hún hefði ekki enn verið gerð.
Stefán sagði brýnt að halda áfram að þróa strandveiðarnar.  Lengja þyrfti tímabilið um mánuð í báða enda til að það taki til fiskgengdar á hverju veiðisvæði.
Á fundinum var snörp umræða um ágang togskipa við suðurströndina.  Búið væri að fella úr gildi 3 mílna landhelgi sem verndað hefði uppvöxt og viðgang þessa mikilvæga svæðis.  Í umræðunni var vitnað til að veiðar með dragnót svo nærri landi hefði skaðað svæðið og leitt til þess að ýsa hefði ekki veiðst þar í fjölmörg ár.  Fundurinn samþykkti tillögu um að veiðar með dragnót innan 3ja sjómílna við suðurströndina verði bannaðar.   
Stjórn Árborgar:
Stefán Hauksson formaður Þorlákshöfn
Eggert Unnsteinsson varaformaður Þorlákshöfn
Ólafur Ingi Sigurmundsson ritari Selfossi
Gísli Unnsteinsson gjaldkeri Hveragerði
Guðmundur Ingi Guðjónsson meðstjórnandi Eyrarbakka
Tillögur Árborgar til 34. aðalfundar LS sem haldinn verður á Grand Hóteli í Reykjavík þann 18. og 19. október nk.