Umræða um dóm Hæstaréttar um aflahlutdeild í makríl sem birtur var 6. desember sl. hefur ekki verið mikil til þessa. Áfrýjendur Huginn ehf og Ísfélag Vestmannaeyja hf hafa tjáð sig með þeim hætti að þeir hyggist bíða eftir viðbrögðum stefnda, íslenska ríkinu. Sjávarútvegsráðherra hefur gefið það út að dómurinn kalli á endurskoðun á reglum um stjórn makrílveiða og fjármálaráðherra sem vörslumaður ríkissjóðs hefur sagt að vonandi verði hægt að leysa málið með viðræðum.
Í dómnum kemur fram að áfrýjendur segjast hafa orðið fyrir hagnaðarmissi upp á um 2,7 milljarða. Nokkuð ítarlega er farið yfir þróun á hlut skipa Ísfélagsins í veiðum á árunum 2011, 2012, 2013 og 2014. Hún reiknast mér til að vera að meðaltali 12,21% af leyfilegum heildarafla.
Samkvæmt dómi Hæstaréttar hefði ráðuneytið átt að gefa út aflahlutdeild í makríl árið 2011 sem byggð var á veiðum þriggja næstliðinna ára 2008, 2009 og 2010. Áfrýjandi segir hana hafi átt að vera 15,7%.
Deliotte byggir á mismun þessara hlutdeilda er fyrirtækið finnur út að hagnaðarmissir Ísfélagsins á tímabilinu hafi verið 2,3 milljarðar.
Á Sjávarútvegssýningunni 2011 heimsótti norsk blaðakona Landssamband smábátaeigenda. Henni var mikið niðri fyrir og vildi ræða við framkvæmdastjóra. Það var makríllinn sem olli henni hugarangri. Framkvæmdastjórinn sagði henni að það væri ekkert sjálfsagðara en að íslensk skip veiddu makrílinn sem kominn væri hér á Íslandsmið. Hér væri hann að afla sér fæðu, njóta þeirra vellystingar sem lífríkið biði upp á. Eðlilegt væri að við fengjum eitthvað á móti. Blaðakonan sagði hins vegar að hennar reiði og norsku þjóðarinnar snérust ekki um þann þátt. Við Norðmenn erum ekki argir yfir því að þið séuð að veiða makríl. Við erum hins vegar brjáluð yfir því hvernig þið gangið um aflann, að þið skulið voga ykkur að bræða hann og nota í skepnufóður. Makríllinn er úrvals matfiskur og hann á að vinna til manneldis.
Í áframhaldandi spjalli var framkvæmdastjórinn hálf afsakandi, skammaðist sín fyrir landa sína sem höfðu hugsað um það eitt að ná sér í veiðireynslu til að fá sem mesta aflahlutdeild. Engu skipti hvernig gengið var um aflann. Bruna með hann í land til bræðslu.
Framangreint samtal varð framkvæmdastjóra LS minnisstætt þegar dómur Hæstaréttar var birtur. Hvernig gátu þessi fyrirtæki haft geð í sér að stefna íslenska ríkinu til greiðslu bóta vegna þessa, þegar fyrir liggur að 71% aflans sem myndaði veiðireynsluna fór í gúanó – bræðslu.