Þriðjudaginn 15. janúar sl. sendi LS skoðanakönnun með tölvupósti til þeirra félagsmanna sem skráðir eru fyrir grásleppuleyfi. Skilafrestur var til miðnættis 17. janúar.
Svarhlutfall var um 50% sem telst gott miðað við stuttan fyrirvara og að eingöngu var stuðst við tölvupóstföng.
Niðurstöður úr helstu spurningum könnunarinnar eru birtar hér að neðan.
Helsta ástæðan fyrir því að gera könnunina var að LS fékk veður af því að Iceland Sustainable Fisheries (ISF) hefði boðað til fundar um MSC vottun á grásleppu í dag 18. janúar.
Til fundarins voru boðaðir verkendur grásleppuhrogna sem hafa verið handhafar MSC skírteinis á grásleppuafurðum ásamt aðilum frá Sjávarútvegsráðuneyti og Hafrannsóknastofnun. Landssambandi smábátaeigenda var ekki boðin þátttaka í fundinum.
Þær niðurstöður könnunarinnar sem snúa að MSC vottun, voru sendar á þá sem þátt tóku í fundinum í þeim tilgangi að þeim væri ljós afstaða grásleppusjómanna í þessum málum.