Alþjóðlegur upplýsingafundur um grásleppumál – LUROMA – var haldinn í Barcelona 1. febrúar sl. Fundurinn er árlegur og var nú haldinn í 31. skiptið. Það er Landssamband smábátaeigenda sem hefur veg og vanda af fundinum.
Á fundinum fara fulltrúar helstu veiðiþjóða yfir gang veiða á síðustu vertíð niðurstaða hennar sett í samhengi við fyrri ár. Framleiðendur upplýsa um stöðu mála hvað varðar stöðu birgða og horfur fyrir næstu vertíð. Í stuttu máli var niðurstaðan sú að jafnvægi sé milli framboðs og eftirspurnar og horfur fyrir næstu vertíð ágætar.
Á fundinum kom fram að á síðustu vertíð var heimsveiði um 15% undir 10 ára meðaltali.
Það er áhyggjuefni að mati LS að markaður fyrir grásleppuhrogn hefur farið minnkandi á síðustu árum og engin teikn á lofti um að sú þróun sé að breytast. Hvað veldur er erfitt að fullyrða um, en ýmsar ódýrari vörur eru sagðar vera í auknu mæli að fylla í hillupláss grásleppuhrogna. Samkeppni við smyrjur og aðrar tegundir hrogna hefur aukist og óstöðugt framboð og verð á grásleppuhrognum virðist hafa áhrif.
Vottunarmál voru rædd og upplýst var um að stofnmat á útsel, sem var ein af þremur tegundum sem felldu MSC vottun á Íslandi hefur hækkað um 50% á sex ára tímabili. Óvissa ríkir um endurheimt vottunarinnar og ekki líklegt að hægt verði að spá fyrir um það fyrr en í ljós að kemur hvort stjórnvöld setji þær skorður á veiðarnar sem þarf til að uppfylla skilyrði í aðgerðaráætlum um endurheimt vottunarinnar.