Gefin hefur verið út ráðgjöf fyrir grásleppu vegna yfirstandandi vertíðar og leggur Hafrannsóknastofnun til að heildaraflamark fiskveiðiárið 2018/2019 verði ekki meira en 4.805 tonn.
Ráðgjöf Hafró hljóðaði upp á 5.487 tonn fyrir síðustu vertíð og er þetta því minnkun upp á um 14% milli ára.
Veiðarnar í ár fara frekar rólega af stað en líklegt er að ótíð sé að hluta til skýringin. Á sjöunda degi vertíðar var búið að landa 97 tonnum af grásleppu frá 47 bátum. Á sama tíma í fyrra var magnið 222 tonn frá 56 bátum.
Búið er að virkja 83 grásleppuleyfi á þessari vertíð, en á sama tíma í fyrra voru leyfin 63.