Hér að neðan er viðtal við formann LS sem birt var í Morgunblaðinu 30.apríl vegna frétta um meint brottkast smábáta.
Vilja breyta reglum um meðafla
● Formaður Landssambands smábátaeigenda segir að grásleppusjómenn geti ekki valið hvað komi í netin
● Vill fá heimild til að gera hlé á veiðum og auka heimildir til löndunar svokallaðs VS-afla
Formaður Landssambands smábátaeigenda segir að enginn möguleiki sé fyrir grásleppusjómenn að leigja eða kaupa þorskkvóta fyrir meðafla og heimild til að landa svokölluðum VS-afla sé afar takmörkuð.Hann gagnrýnir stjórnvöld fyrir að ljá ekki máls á breytingum á reglum til að gera mönnum kleift að landa meðafla. Enginn vilji fá þorsk í grásleppunetin en fiskgengd sé ekki stýrt í excel-skjali.
Landhelgisgæslan upplýsti sl.föstudag að hún hefði staðið þrjá fiskibáta að ólöglegu brottkasti afla.Þar mun hafa verið um grásleppubáta að ræða, þótt það kæmi ekki fram.
Eyþór Björnsson fiskistofustjóri sagði við Morgunblaðið af þessu tilefni að mikill sveigjanleiki væri í kerfinu og enginn ætti að þurfa að henda fiski. Útgerðir gætu keypt eða leigt sér kvóta eða landað meðaflanum án refsingar í svokallaðan VS-sjóð.
Ekki hægt að fá leigt
Axel Helgason, formaður Landssambands smábátaeigenda, hefur margt við þessi orð fiskistofustjóra að athuga. Segir að staðan sé önnur í raunheimum en fiskistofustjóri upplifi. Nefnir hann að VS-heimildin sé aðeins 5% af afla. Ef bátur sé með 10 tonn af grásleppu megi hann aðeins landa 500 kílóa meðafla. Það dugi sjaldnast á þeim svæðum og tíma sem meðafli er mestur. Segist hann fá þær upplýsingar frá sínum félagsmönnum að menn geti heldur ekki leigt aflaheimildir. Hann segist hafa fengið það staðfest með því að hringja í fjórar stærstu kvótamiðlanirnar. Engin hefði eitt einasta kíló til að leigja. „Hvað eiga menn þá að gera? Ef þeir landa án heimildar vofir yfir þeim svipting veiðileyfis, segir Axel.
Vantar viljann til að bæta
Segir hann að samtökin hafi lagt það formlega til og oftar en einu sinni á samráðsfundi með Fiskistofu að stofnunin veiti stuðning við óskir LS um að VS-heimildin verði hækkuð. Sjávarútvegsráðuneytinu hafi einnig verið bent á það að nauðsynlegt sé að hækka heimildina í 10%,nú síðast með formlegu erindi í vor. Enginn vilji hafi komið fram um að bregðast við þessum vanda.
„Fiskistofa tók algerlega öfugan vinkil á þetta því þeir báðu um það í upphafi vertíðar og fengu í gegn að heimilt yrði að svipta báta veiðileyfi ef þeir lönduðu meira af þorski en grásleppu. Þetta er hugsað til að koma í veg fyrir að þorskur veiðist í grásleppunetin en gerir mönnum ókleift að landa aflanum, segir Axel og bætir við: „Þetta er galið og sýnir aðeins hvernig Fiskistofa er þenkjandi í þessum heimi. Það er eins og við getum ákveðið hvað kemur í netin.
Axel segir einnig að samtökin hafi reynt að fá fram breytingar til að menn geti gert hlé á veiðum og hafi umgengnisnefnd talið það ákjósanlega leið til að minnka meðafla í grásleppunet. Samtökin hafi óskað eftir þessu við ráðuneytið en Fiskistofa lagst gegn því. „Það er æskilegt að menn geti gert hlé á veiðum, ekki aðeins þegar mikil fiskgengd er heldur
einnig þegar spáð er brælu. Allur þorskur er ónýtur eftir viku brælu.Sum svæðin eru alveg laus við þorsk í nokkur ár en hann fylgir loðnugöngum og stundum fyllist allt af þorski. Að heimilt verði að gera hlé á veiðum er ein áhrifaríkasta leiðin til að bregðast við þessu vandamáli, segir Axel.