Í atvinnuveganefnd Alþingis er nú til meðferðar stjórnarfrumvarp um stjórn veiða á makríl. Frumvarpið er frá Kristjáni Þór Júlíussyni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Nefndin óskaði umsagnar hagsmunaaðila um frumvarpið og bárust henni erindi frá 6 aðilum.
Landssamband smábátaeigenda hafði áður skilað inn umsögn í samráðsgátt stjórnvalda um drög að frumvarpinu. Það kom þó ekki í veg fyrir að LS sendi atvinnuveganefnd ítarlega umsögn um sjálft frumvarpið.
Í upphafi umsagnarinnar er vakin athygli á samþykktum aðalfundar og stjórnar LS um málefnið.
Þá segir eftirfarandi í umsögn LS
„LS óskar eftir að samhliða frumvarpinu verði gerðar eftirtaldar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða nr. 116/2006 með síðari breytingum:
1. Ákvæði til bráðabirgða VIII gildi til ársins 2023 og í stað 2.000 lesta af makríl til smábáta komi 4.000 lestir í þeirra hlut.2. Við 11. gr. bætist ný málsgrein sem verði nr. 9 sem orðist svo: Bátar styttri en 15 metrar að mestu lengd og minni en 30 brúttótonn að stærð, sem stunda veiðar með línu og handfærum skal heimilað á hverju fiskveiðiári að veiða 5,3% af leyfilegum heildarafla í makríl.3. Við 1. málslið 5. mgr. 8. gr. bætist við eftirfarandi: , til makrílveiða skv. 9. mgr. 11. gr.4. Að viðmiðunartími veiðireynslu smábáta verði 2013 – 2018 og þrjú bestu árin valin.5. Skipting heildarafla í makríl verði skipt milli tveggja flokka skipa.
a. Til uppsjávarskipab. Til smábáta sem veiða með línu eða handfærum
Óheimilt verði að færa aflaheimildir frá færabátum til uppsjávarskipa.
Í greinargerð með umsögninni er m.a. vakin sérstök áhersla á eftirfarandi vá verði frumvarpið óbreytt að lögum:
- Verði frumvarpið óbreytt að lögum mun það fækka enn frekar þeim smábátum sem möguleika hafa á að stunda makrílveiðar. Það mun skaða vöxt og viðgang smábátaútgerðar og draga enn meir úr möguleikum hinna dreifðu byggða að nýta hinn nýja gest í íslenskri lögsögu til atvinnusköpunar og hámarks verðmæta. Sú hætta er raunveruleg að makrílveiðar smábáta, nýting grunnslóðar og framboð á hágæða makríl muni nánast heyra sögunni til.