Í nýjasta Ægi – sérriti um sjávarútveg frá 1905 – er rætt við Örn Pálsson.
Örn kemur víða við í viðtalinu. Ræðir m.a. um grásleppu, makrílfrumvarpið, strandveiðar, línuívilnun og mikilvægi þess að sameina alla smábátaeigendur innan eins félags.
„Værum sterkari allir saman
Úrsagnir stærstu smábátanna úr Landssambandi smábátaeigenda komu illa við sambandið. Örn segir að þó þeir hafi sagt sig úr félaginu, njóti þeir engu að síður áfram starfs landssambandsins. Það hafi berlega komið í ljós, þegar veiðigjaldið var ákveðið. Landssambandið hafi ekki verið að gera greinarmun á því í kröfugerð sinni, hvort smábátarnir væru innan þess eða annars félagsskapar. Lögð hafi verið áhersla á að sérstakur afsláttur á veiðigjaldinu yrði fyrir smærri og meðalstórar útgerðir. Það hafi tekist að hækka þennan afslátt mjög mikið, úr 20% í 40% af gjaldi sem var innan við sex milljónir. Þetta munar miklu fyrir útgerðirnar.
Þá sé það annar þáttur að Landssambandið standi í samningum við stéttarfélögin um kaup og kjör á bátunum. Þar sé landssambandið einnig að vinna fyrir aðila sem kjósi að standa utan þess. „Okkur finnst það mjög miður að þessir aðilar sjái sér ekki fært að vera innan landssambandsins, því aldrei í sögunni hefur það unnið beint gegn hagsmunum þessara aðila. Við vitum það að með því að sameina alla smábátaeigendur innan eins félags, eru engin samtök eins sterk eins og Landssamband smábátaeigenda, segir Örn Pálsson.