Fyrirsögn þessa pistils á vel við gang strandveiða nú í upphafi júní. Tíðarfarið hefur leikið menn grátt, stöðug bræla nema um helgar eins og einn orðaði það og allt útlit fyrir að annar í hvítasunnu heilsi með góðu veðri, en þann dag er óheimilt að stunda strandveiðar.
Aflatölur bera þess glögg merki. Þrátt fyrir að fjölgun báta er afli á fyrstu fjórum dögunum í júní aðeins helmingur þess sem hann var á sama tíma í fyrra. Þá skiluðu veiðarnar 729 tonnum en nú 354 tonn.
Samdrátturinn er langmestur fyrir norðan og austan á svæði C, aðeins 14 tonn á móti 132 í fyrra. Stöðug bræla sem sést best á aðeins 24 róðrum í ár á móti 203 að loknum 4. degi í júní, að meðaltali 6 róðrar á dag á móti 51 í fyrra.
Heildarafli strandveiðibáta í ár er nánast óbreyttur milli ára, 2.697 tonn á móti 2.639 tonnum í fyrra. Meðalveiði á hvern hinna 489 báta sem hafa hafið veiðar er hins vegar lítið eitt lakari, 5,5 tonn á móti 5,9 tonnum hjá 446 bátum á síðasta ári.
Þrátt fyrir ótíðina hafa 15 bátar nýtt alla 16 veiðidagana sem í boði hafa verið. Þó veiðidagamengið í júní sé aðeins 14 dagar má þó búast við því að fleiri nái fullri nýtingu í júní.
Aflahæstu bátarnir á hverju veiðisvæði eru:
D:
Marín SF 27 15,3 tonn 16 róðrar
A:
Kolga BA 70 14,6 tonn 14 róðrar
B:
Svala EA 5 11,5 tonn 14 róðrar
C:
Birta SU 36 12,8 tonn 13 róðrar