Þann 8. ágúst sl. birti Fiskistofa lista yfir útgerðir sem fengu úthlutað aflahlutdeild í makríl. Aflahlutdeildin skiptist milli uppsjávarskipa (A flokkur) og smábáta sem hafa veitt makríl á færi eða fengið hann sem meðafla (B flokkur).
Í flokki B skiptist 2,24% aflahlutdeild á 480 báta. Af þeim voru 377 bátar sem fengu hlutdeild sem gaf þeim innan við tonn í aflamark á yfirstandandi makrílári 2019. Aflahlutdeild þessa hóps varð ekki til vegna beinna veiða á makríl, heldur sem meðafli við aðrar veiðar og því ólíklegt að hugur þeirra standi til beinna veiða á makríl.
Að undanförnu hafa menn spurt um hvaða reglur gildi um makrílinn varðandi millifærslur og veiðiskyldu. Því er til að svara að hér er um að ræða úthlutað aflamark sem byggt er á hlutdeild og um flutning milli báta gilda því sömu reglur og með aðrar kvótabundnar fisktegundir.
Ástæða er til að árétta að aflamark í makríl tekur einnig til veiðiskyldu. Það kveður á um að veiða þarf árlega 50% af úthlutuðu aflamarki í þorskígildum talið. Úthlutað aflamark í makríl og afli á árinu 2019 fellur inn í fiskveiðiárið sem hefst 1. september 2019. Útgerðir hafa því allt næsta fiskveiðiár 2019/2020 til að uppfylla veiðiskyldu. Ígildisstuðull á makríl er 0,22 þegar reiknað er til þorskígilda á fiskveiðiárinu 2019/2020.
Ljóst er að það getur reynst strembið að uppfylla veiðiskyldu hjá aðilum sem hafa aflamark í einni tegund, makríl. Þrátt fyrir að hugur þeirra hafi staðið til makrílveiða á yfirstandandi vertíð þá hefur hann ekki veiðst á þeirra veiðisvæði. Dæmi um þetta er Steingrímsfjarðar svæðið. Á því svæði hafði bátur frá Hólmavík veitt yfir 100 tonn á þessum tíma í fyrra, en nú bregður svo við að ekkert hefur veiðst þar.