Aðalfundur Sæljóns – félags smábátaeigenda á Akranesi – var haldinn sl. fimmtudag þann 19. september. Skemmst er frá því að segja að Skagamenn fjölmenntu til fundar og myndaðist góð stemning.
Fjölmargar ályktanir voru samþykktar. Meðal þeirra voru:
- Krafa um að strandveiðitímabilið verði lengt um ½ mánuð í hvorn enda þar sem óheimilt verði að róa á föstudag og laugardag. Fjöldi veiðidaga verði óbreyttur, 48 og heimilt að nýta 12 daga að hámarki í hverjum mánuði.
- Komið verði á handfæraívilnun báta minni en 30 brt .
- Sæljón mótmælir skerðingu ráðherra á afla til línuívilnunar.
Þá samþykkti aðalfundur Sæljóns eftirfarandi um umhverfisáhrif veiðarfæra:
Aðalfundur Sæljóns, haldinn á Akranesi 19. september 2019 skorar á umhverfisráðherra, Guðmund Inga Guðbrandsson, að beita sér fyrir því að gert verði umhverfismat á áhrifum veiðarfæra sem heimilt er nota á Íslandsmiðum á sjávarbotn og lífríki sjávar.
Stjórn Sæljóns var öll endurkjörin, en hana skipa
- Jóhannes Simonsen formaður
- Böðvar Ingvason meðstjórnandi
- Guðmundur Elíasson meðstjórnandi
- Guðmundur Páll Jónsson ritari
- Rögnvaldur Einarsson gjaldkeri.