Guðlaugur tekur við af Ólafi

Áfram verður haldið þar sem frá var horfið í gær með kynningu á ályktunum svæðisfélaga til aðalfundarins.
Félag smábátaeigenda á Austurlandi
Aðalfundurinn var haldinn á Breiðdalsvík þann 26. september.  Mæting var góð og fjölmörg málefni rædd.  Þar bar helst til tíðinda að Ólafur Hallgrímsson sem verið hefur formaður sl. 13 ár óskaði ekki eftir endurkjöri.  Guðlaugur Birgisson frá Djúpavogi gaf kost á sér sem formaður og fékk rússneska kosningu.  Guðlaugur lét það verða sitt fyrsta verk að þakka Ólafi fyrir frábær störf í þágu smábátaeigenda, þakkaði fundarmönnum traustið og sleit fundi.
Fontur – félag smábátaeigenda á NA-landi
Aðalfundur Fonts var haldinn á Þórshöfn 27. september.  Fundinn sóttu  félagsmenn frá Vopnafirði, Bakkafirði, Þórshöfn og Raufarhöfn.  Auk venjulegra aðalfundarstarfa og í kjölfarið samþykkt ályktana var rætt um fyrirhugaðar framkvæmdir við stórskipahöfn í Finnafirði.  Fram komu áhyggjur fundarmanna á að þær gætu skaðað lífríkið þar, en að margra mati er þar mikilvægt hrygningarsvæði fyrir þorsk.
Einar Sigurðsson Raufarhöfn er formaður Fonts