Skalli, Reykjanes, Báran, Farsæll

Skalli – félag smábátaeigenda á N-landi vestra
Aðalfundur Skalla var haldinn á Sauðárkróki 29. september.  Þau tíðindi urðu á fundinum að Steinn Rögnvaldsson á Hrauni gaf ekki kost á sér til endurkjörs sem formaður félagsins.  Í innleggi til félagsmanna á þessum tímamótum sagði Steinn nóg komið, rétt væri að hleypa ungum og áhugasömum til forystu.  Hann þakkaði fyrir stuðninginn sem formaður og óskaði félaginu velfarnaðar.  Steinn hefur gegnt formennsku í Skalla frá 2016. 
Við formennsku í Skalla tók Guðni Lýðsson Skagaströnd.  Hlaut hann rússneska kosningu.   Í ræðu sem hann flutti af þessu tilefni beindi hann orðum sínum mest til Steins þar sem óskaði honum velfarnaðar og þakkaði honum fyrir hið góða starf sem hann hefði unnið fyrir smábátaeigendur.
 
Farsæll – félag smábátaeigenda í Vestmannaeyjum
Aðalfundur Farsæls var haldinn 30. september.  Fundurinn var í húsakynnum Þekkingarseturs Vestmannaeyja þar sem öll aðstaða er til fyrirmyndar.  Félagar í Farsæl leggja áherslu á að ekki verði hróflað við svæðaskiptingu í strandveiðum, hins vegar sé þörf á að lengja veiðitímabilið. 
 
Formaður Farsæls er Hrafn Sævaldsson

Reykjanes – félag smábátaeigenda á Reykjanesi
Aðalfundur Reykjaness var haldinn í Grindavík 3. október.  Færri mættu til fundarins en búist var við.  Engu að síður var fundurinn góður ekki síst þar sem 3 nýir félagsmenn voru nú að koma í fyrsta sinn til fundar.
Á fundinum var mikið rætt um ágang sæbjúgnaskipa á hefðbundin veiðisvæði smábátaeigenda. Höfðu fundarmenn áhyggjur af afleiðingum þessara veiða þar sem skipin beita tveimur gríðarlega þungum plógum við þær.
Formaður Reykjaness er Eyþór Reynisson
Báran – félag smábátaeigenda Hafnarfjörður – Garðabær
Aðalfundur Bárunnar var haldinn í Hafnarfirði 5. október.  Áköfust var umræðan um strand- og grásleppuveiðar. 
 
Við strandveiðar vilja Bárumenn minnka kolefnisspor og gera veiðarnar hagkvæmari, með því að fækka róðrum til að ná í skammtinn.  Hægt verði að veiða allt að 2 skammta 1.300 ígildi í einum og sama róðrinum sem teljist þá til tveggja veiðidaga.  
Grásleppuna vilja félagar í Bárunni setja í kvóta.
Formaður Bárunnar er Guðbrandur Magnússon