Grímsey á betra skilið

Málefni Grímseyjar hafa verið í umræðunni á síðustu misserum.  Það kemur ekki til af góðu því veiðiheimildir og þar með lífsbjörg eyjaskeggja hafa að mestu verið fluttar frá þeim til nýtingar annars staðar á landinu. 
Aðalfundur Landssambands smábátaeigenda sem haldinn var 17. og 18. október lét málið til sín taka og samþykkti eftirfarandi:

Stuðningsyfirlýsing við Grímsey

„Aðalfundur LS 2019 harmar þá þróun sem er að eiga sér stað í Grímsey. Þessi útvörður Íslandsbyggðar á betra skilið en nú blasir við að óbreyttu. Í gegnum tíðina hefur smábátaútgerð eyjaskeggja verið eitt helsta stolt Landssambands smábátaeigenda. Hún hefur sýnt hversu lífsnauðsynleg sú útgerð er hinum smáu sjávarbyggðum. Grímsey byggðist upp vegna gjöfulla fiskimiða allt um kring og vandséð að annað geti komið í staðinn.  

Fundurinn skorar á stjórnvöld að grípa þegar til sértækra ráðstafana, sem samræmast 1. grein fiskveiðilaganna um trausta atvinnu og byggð í landinu”.