Útlit fyrir tveggja stafa raunávöxtun hjá Gildi

Gildi lífeyrissjóður efndi til sjóðfélagafundar þann 20. nóvember sl.  Mæting á fundinn var mjög góð, segja má að fullt hafi verið út úr dyrum.
Í upphafi fundar greindi Árni Guðmundsson framkvæmdastjóri sjóðsins frá helstu tölum í rekstri og starfsemi sjóðsins á fyrstu tíu mánuðum ársins.  Skemmst er frá því að segja að verði ekki meiriháttar áföll á síðustu tveimur mánuðum ársins má gera ráð fyrir að árið skili tveggja stafa tölu í raunávöxtun.  Það hefur ekki gerst frá árinu 2005, þegar sjóðurinn skilaði 17,5% raunávöxtun.  Staðan nú í lok október var 12,4%, sannarlega glæsilegur árangur.
Að loknu ávarpi framkvæmdastjóra var opnað fyrir fyrirspurnir úr sal.   Einn af fyrirspyrjendum var Agnar Ólason félagsmaður í LS.     
Agnar spurði hvort Gildi hefði verið farið ofan í saumana á viðskiptum með hlutafé í HB-Granda – nú Brim hf,  og grafist fyrir um það hvort rifta mætti þeim gjörningum sem fylgdu í kjölfar þess að Gildi ákvað að selja dótturfélagi FISK-seafood hluti sína í félaginu þann 18. ágúst sl.  Hvort Útgerðarfélag Reykjavíkur (áður Brim) var ekki yfirtökuskylt þegar Gildi bauð hlutina til sölu.
 
Agnar taldi það augljóst að FISK-seafood hafi ekki keypt bréfin af Gildi til þess að eiga þau til frambúðar, jafnframt að Útgerðarfélag Reykjavíkur hafði fullan hug á því að eignast hlut Gildis þann 18. ágúst.  Kannski var þar um að ræða „snúning eins og Skagfirðingarnir orðuðu það.  Hvort Gildi hefði öðlast rétt til að fá þann 850 milljóna mismun sem myndaðist á tímabilinu 18. ágúst til 8. september greiddan á grundvelli yfirtökuskyldu.    
Svar framkvæmdastjóra Gildis var á þá lund að ekki hefði verið talin ástæða til þess að kanna þetta sérstaklega enda væri það hans álit að Gildi kæmi það ekki við hvaða fléttur eða snúningar væru gerðir í viðskiptum með hlutabréf sem keypt væru af sjóðnum eftir að hann léti þau af hendi.
Að loknum fyrirspurnum flutti Henný Hinz, hagfræðingur ASÍ erindi um samspil almannatrygginga og lífeyrissjóða.
Fundinum lauk með erindi Árna Hrafns Gunnarssonar, lögfræðingi Gildis, sem fjallaði um fyrirkomulag við val á stjórnarmönnum og hlutverk fulltrúaráðs sjóðsins í því ferli.