Handfærarúllur utan bótasviðs tryggingaskilmála

Í lok desember 2016 var sex handfærarúllum stolið úr smábátnum Gosa KE sem lá við bryggju í Njarðvíkurhöfn.  Eigandi taldi að tjónið sem hann varð fyrir félli undir skilmála smábátatrygginga hjá Verði.  Tryggingafélagið taldi svo ekki vera og sagði handfærarúllurnar teljast til veiðarfæra sem væru undanþegin bótasviði tryggingaskilmála félagsins.
Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem birtur var 3. desember sl. er bótaskyldu hafnað og tryggingafélagið sýknað á grundvelli þess að handfærarúllur eru skilgreindar sem veiðarfæri en ekki fylgifé.  Þar er birtur sá kafli tryggingarskilmála sem fjallar um bótasvið:  
„Vátryggingin tekur til báts þess, sem tilgreindur er í skírteininu, fylgifjár hans, virst og birgða, sem eðlilegar mega teljast.  Til báts og fylgifjár teljast vélar bátsins, gangskrúfa og aðrar skrúfur, ásamt öxlum og gírum, vindu, rafkerfi, fiskileitartæki, dýptarmælir, ratsjá, leiðsögutæki, loftskeyta- og kalltæki, ásamt nauðsynlegum búnaði og varahlutum, enda séu þessir munir um borð í bátnum.
Undir vátrygginguna falla ekki fiskkassar, afli og veiðarfæri, þ. á m. varpa ásamt hlerum og vírum, nætur, nemar og sendar festir við veiðarfæri, net, línur, færi, belgir, baujur og bólfæri, undanþága þessi nær einnig til farangurs skipverja.
Vitnað er til laga um stjórn fiskveiða þar sem segir í 4. tl. 6. mgr. 6. gr. a í lögunum:  „Engin önnur veiðarfæri en handfærarúllur skulu vera um borð.   Jafnframt bent á samhljóða ákvæði í reglugerð um strandveiðar.
Í dómnum segir: 
 „Með hliðsjón af framangreindu ber að líta svo á að vátryggingin taki ekki til handfærarúllna þeirra sem í málinu greinir.  Þær teljast ótvírætt til veiðarfæra og geta ekki talist til fylgifjár bátsins miðað við texta vátryggingarskilmálanna sem fyrr er rakinn.