Frumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um breytingu á lögum um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa varð að lögum fyrr í dag. Í þeim eru skipstjórnar- og önnur réttindi sem miðuð hafa við 12 metra skráðra lengdar færð upp í 15 metra.
Útdrag úr inngangi greinargerðar með frumvarpinu:
„Hún miðar að því að breyta viðmiðunum sem gilda um lengd smáskipa úr 12 metrum í 15 metra og breyta kröfum um lágmarksfjölda skipstjórnar- og vélstjórnarmanna á fiskiskipum, varðskipum og öðrum skipum þannig að þær miði jafnframt við skip sem eru 15 metrar eða styttri að skráningarlengd. Með þessu eru mönnunarkröfur sem gilda um skip sem eru 12 til 15 metrar að skráningarlengd einfaldaðar þannig að ein regla gildi um öll skip á þessu stærðarbili.
Við breytingar á stærðarmörkum krókaaflamarksbáta árið 2013 höfðu aðilar með smáskipapróf ekki lengur rétt til skipstjórnar á öllum krókaaflamarksbátum. Réttindi þeirra náðu ekki til báta lengri en 12 metra. Með breytingunni sem samþykkt var í dag uppfærast réttindi þeirra til skipstjórnar á 15 metra báta og styttri.
LS hefur allt frá haustdögum 2013 unnið að því að ákvæði í mönnunarlögum yrðu samræmd við stærðarmörk krókaaflamarksbáta. Færð úr 12 metrum í 15 metra. Breyting á stærðarmörkum leiddu til þess að þeir sem höfðu aflað sér skipstjórnarréttinda – smáskipapróf voru ekki lengur með réttindi til skipstjórnar á öllum krókaaflamarksbátum. Réttindi þeirra voru smáskiparéttindi sem giltu á báta 12 metra og styttri.