Fullt út úr dyrum í Hólminum

Fundur Snæfells – félags smábátaeigenda á Snæfellsnesi – um málefni grásleppuveiðimanna sem haldinn var í Stykkishólmi í gærkveldi og hófst með ávarpi Runólfs Jóhanns Kristjánssonar formanns Snæfells.  Hann bauð fundarmenn velkomna og fagnaði góðri aðsókn, sem segði sína sögu um mikilvægi þess málefnis sem væri til umræðu.  Vegið að afkomu grásleppukarla og væri verkefni fundarins að bregðast við þeirri ógn sem að steðjaði.  
IMG_0860.png
Að loknu ávarpi formanns steig Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í pontu.  Hann ræddi um fyrirhugaða reglugerð um hrognkelsaveiðar 2020 og mótmælti því harðlega að álitaefni, sem þar væru, hefðu verið sett fram af illvilja.  Reglugerðina sagði hann nú vera til yfirferðar í ráðuneytinu þar sem litið væri til hinna fjölmörgu athugasemda og ábendinga sem gerðar hefðu verið í samráðsgátt stjórnvalda.  Ráðherra sagðist hafa átt góðan og hreinskiptin fund með stjórn LS um miðjan janúar þar sem málin hefðu verið rædd og hann hlustað á sjónarmið stjórnarmanna.  Áformað væri að reglugerð um hrognkelsaveiðar 2020 yrði gefin út í næstu viku.
Ráðherra þakkaði fundarboðendum sérstaklega fyrir að bjóða sér að taka þátt fundinum. 
IMG_0868.png
Axel Eyfjörð Friðriksson gæðastjóri hjá Vigni G. Jónssyni á Akranesi var næstur á mælendaskrá.  Hann ræddi um afleiðingar þess að grásleppan hefði misst MSC vottun.  Kaupendur á grásleppukavíar væru í síauknum mæli að gera það sem skilyrði fyrir viðskiptum að varan væri vottuð.   Allt stefndi því í erfiðleika við að koma kavíarnum á markað.  Skipti það engu þó viðskiptasagan spannaði í áratugi.  Við sölu á kavíar í lok sl. árs hefði framleiðsla úr hrognum frá Grænlandi og Noregi (bæði löndin eru með MSC vottun) selst á um 15% hærra verði en héðan.  
Endurheimt vottunar væri því nauðsynleg fyrir áframhaldandi góða afkomu af grásleppuveiðum, jafnt hjá sjómönnum og framleiðendum kavíars.  Axel fagnaði frumkvæði LS að bregðast við þessari ógn með átaki meðal sjómanna í að minnka meðafla á sel.  Væntanlegar tillögur frá svæðisfélögunum mundu verða gott innlegg í umsókn um endurnýjun MSC vottunar fyrir grásleppu.
Kristinn Hjálmarsson verkefnisstjóri Icelandic Sustainable Fisheries greindi frá nýrri skýrslu frá vottunaraðilum sem gæfu til kynna að möguleiki væri á að endurheimta vottunina á næstu vertíð.  Allt yrði þó að ganga upp til að svo yrði.  Kristinn sagði ánægjulegt að verða vitni að samstöðu grásleppukarla í að gera allt sem í þeirra valdi væri til að endurheimta vottun grásleppuveiða. 

IMG_0872.png

 
Þorlákur Halldórsson formaður LS þakkaði félagsmönnum og gestum fyrir þátttökuna á fundinum.  Frábært að ná saman þessum sterka hóp, nú væri áríðandi að allir stæðu saman í að uppfylla kröfur sem gerðar væru til að endurheimta vottunina.  Þorlákur sagði það sína skoðun að innlegg sjómanna til þessa máls væri afar mikilvægt.  Ásamt því og öðrum aðgerðum frá ráðuneyti og Fiskistofu næðum við að endurheimta vottunina.
Fundinum lauk með fyrirspurnum til frummælenda og almennum umræðum.  Þó skiptar skoðanir væru um málið var fundurinn í alla staði málefnalegur.  Tímabundinn mótbyr gagnvart grásleppuveiðum væri áskorun um að gera betur, sem menn væru staðráðnir í.
Snæfell á þakkir skildar fyrir að boða til þessa fundar.  Þó fyrirvari hafi verið lítill var fullt út úr dyrum í Ráðhúsinu Stykkishólmi.
Fundinum var streymt í gegnum facebook síðu LS – horfa frá 13:20