Fyrsti dagur grásleppuvertíðar

Breyting sem gerð var á upphafstíma grásleppuvertíðar virðist ekki hafa fengið mikinn hljómgrunn.  Nú í morgun voru, samkvæmt upplýsingum frá Fiskistofu, aðeins tvær útgerðir búnar að ganga frá veiðileyfi og höfðu sett 12. mars sem upphafsdag.  Átta aðrar höfðu sótt um að hefja veiðar í dag, en ekki gengið frá greiðslu veiðileyfis og bíða því átekta.
Undanfarin ár hefur mátt hefja veiðar 20. mars, en nú brá svo við að ráðherra ákvað að heimila veiðar tíu dögum fyrr.  Skilaboð stjórnar LS voru að hafa byrjunartíma eins og verið hefur, 20. mars.  
Á síðustu vertíð lögðu 30 bátar netin á fyrsta degi og fjölgaði síðan ört næstu dagana eftir 20. mars.  
Grásleppuleyfi er gefið út til 25 samfelldra daga, sem verður endurskoðað um næstu mánaðamót þegar Hafrannsóknastofnun hefur gert tillögu um heildarafla.  Á vertíðunum 2018 og 2019 voru dagarnir 44 talsins.
    
200310 4.jpg