VS- afli og meðafli við grásleppuveiðar

Í aðdraganda að reglugerð um hrognkelsaveiðar 2020 komu upp nokkur álitaefni sem LS gerði athugasemdir við og kallaði eftir skýringum á.  Eitt þessara atriða laut að meðafla við veiðarnar.  Dæmi um spurningar sem brunnu á mönnum voru:  
Hvort sjómenn gætu búist við því að vera bannað að fara í róður til að vitja um ef báturinn hefði ekki veiðiheimildir fyrir væntanlegum meðafla?  
Hvort sektum og veiðileyfasviptingum yrði beitt vegna meðafla?   
Á fundi stjórnar LS og sjávarútvegsráðherra 10. janúar sl. voru þessi málefni meðal þeirra sem rædd voru.  Viðbrögð ráðherra gáfu til kynna að hann vildi koma til móts við þá sem ættu í erfiðleikum með að forðast meðafla.  
Á undanförnum vikum hefur LS fundað með ráðuneytinu þar sem reynt hefur verið að finna viðunandi lausn.  Mörgum steinum hefur verið velt við, t.d. að hækka meðaflaprósentu úr 5 í 10.  Sú leið var hins vegar ekki greiðfær, breyta þyrfti lögum til að svo yrði.   Í ljósi þess hversu stutt var í vertíð reyndist það ómögulegt, en þar með er sú hugmynd ekki út af borðinu.  Hún verður skoðuð útfrá reynslunni sem fæst af vertíðinni sem nú er ný hafin.   
Niðurstaða viðræðna urðu þær að ráðuneytið mundi semja ítarlegar leiðbeiningar um VS-afla.  
Eftirfarandi skilaboð frá sjávarútvegsráðuneytinu 
sýna glöggt að afleiðingar þess að koma með allan 
afla að landi eru óverulegar, það á ekki að leiða til 
óheyrilegs kostnaðar né að hafa í för með sér 
alvarlegar afleiðingar.
VS- afli og grásleppuveiðar.
Vakin er athygli á því að þrátt fyrir að 6. gr. reglugerðar um hrognkelsaveiðar, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar,  þar sem segir að áður en veiðiferð hefst skuli útgerð sjá til þess að báturinn hafi þær aflaheimildir sem dugi fyrir ætluðum meðafla í veiðiferðinni, stendur ekkert í vegi fyrir því að hægt sé að skilgreina meðafla við grásleppuveiðar sem VS afla, sbr. 9. mgr. 11. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.
Með því að skilgreina meðafla sem VS afla komast útgerðir hjá neikvæðri aflastöðu á grásleppuvertíð sem myndi annars leiða til sviptingar á leyfi til veiða í atvinnuskyni.
Um VS-aflann gildir:

1.    Heimilt er að skilgreina meðafla við grásleppuveiðar sem VS afla.

2.    Heimildin nær til 5% af afla fiskveiðiársins hjá viðkomandi bát.

3.    Aflanum þarf að halda aðskildum frá öðrum afla skipsins og hann veginn og skráður 
       sérstaklega.

4.    Aflinn er seldur á fiskmarkaði og rennur hluti af andvirði aflans til Verkefnasjóðs 
       sjávarútvegsins.

5.    Fiskmarkaðir standa skil á andvirði hins selda afla til ríkisins (að frádregnum 
       hafnargjöldum), kostnaði við uppboð og hlut útgerðar).  

6.    Útgerð fær 20% af andvirði hins selda afla.

7.    Afli umfram VS aflaheimild verður gerður upp sem almennur afli við lok fiskveiðiársins.  

8.    Ef nægilegt aflamark reynist á bátnum verður aflinn umfram VS heimildir dreginn af  kvóta 
       bátsins.  Afli sem er umfram aflamark bátsins leiðir til innheimtu á ólögmætum sjávarafla. 
       Andvirði hans sem innheimt er miðast við aflaverðmæti síðustu landana fiskveiðiársins. 

9.    Fiskistofa mun koma upplýsingum um ofgreiðslur í VS sjóðinn til ráðamanna sjóðsins sem  
       vistaður er hjá ráðuneytinu og stuðla þannig að skilvirkum endurgreiðslum úr VS sjóðnum.

10.  Innheimta vegna ólögmæts sjávarafla mun ekki fara fram fyrr en ofgreiðslur í VS sjóðinn 
       hafa verið endurgreiddar.  

Nánari lýsing:

Grásleppuútgerð landar 8.000 kg af bolfiski í VS afla. Í hlut útgerðar koma u.þ.b. 20% af aflaverðmætinu og afgangur rennur í VS sjóð að frádregnum hafnargjöldum og kostnaði við uppboð. Ef í lok fiskveiðiárs kemur í ljós að VS aflaheimild bátsins var ekki nema 4.500 kg, þá er skráning á 3.500 kg sem VS afla röng og  henni verður breytt  þannig að þetta telst almennur afli. Ef á bátnum reynist aflamark sem dugar fyrir þessum afla þá lækkar kvótastaðan sem þessu nemur. Ef kvóti dugar ekki fyrir  aflanum leiðir hann til umframafla. Eftir lok fiskveiðiársins sendir Fiskistofa upplýsingar um ofgreiðslur í VS sjóðinn til ráðamanna sjóðsins sem endurgreiðir verðmæti umfram VS aflans (að frátöldum kostnaði við uppboðið og hafnargjöldum). Fiskistofa innheimtir ólögmætan sjávarafla sem kemur til vegna umframafla og miðar þá við  aflaverðmæti síðustu landana ársins.  Fiskistofa innheimtir ekki gjaldið fyrr en endurgreitt hefur verið fyrir ofgreiddan VS afla.
Hægt er að fylgjast með stöðu í nýtingu VS aflaheimilda á vef Fiskistofu undir aflamarki og VS aflayfirlit:
Screenshot 2020-03-13 at 11.10.38.png