Sjávarútvegsráðherra hefur undirritað reglugerð um strandveiðar 2020. Reglugerðin er að mestu samhljóða frá í fyrra að undanskildu ákvæði um bann við róðrum á rauðum dögum.
Í maí bætist við einn dagur, uppstigningardagur 21. maí. Í júní bætast við 2 dagar, annar í hvítasunnu sem er fyrsti dagur mánaðarins og þjóðhátíðardagurinn sem nú ber upp á miðvikudag. Þá bætist við einn dagur í ágúst, frídagur verslunarmanna, mánudagurinn 3. ágúst.
Samkvæmt upplýsingum úr sjávarútvegsráðuneytinu er unnið að gerð frumvarps um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða – ákvæði um strandveiðar. Landssamband smábátaeigenda bindur miklar vonir við að það tryggi strandveiðar að lágmarki 48 veiðidaga sem hægt verði að nýta yfir lengri tíma en þá 4 mánuði sem verið hefur.
Vakin er athygli á að Fiskistofa opnar fyrir umsóknir um leyfi til strandveiða nk. mánudag. Fyrsti dagur strandveiða 2020 verður mánudagurinn 4. maí.