Frá framkvæmdastjóra
„Heldur er að fjölga á strandveiðum því tveir ungir menn úr Grímsey hafa keypt sér báta og ætla að vera á strandveiðum í sumar. Venjulega færist meira líf í strandveiðarnar í júní þegar aðkomubátar bætast í hópinn,
sagði Sigurður Ingi Bjarnason vélsmiður í Grímsey í viðtali við blaðamann Morgunblaðsins 29. maí sl. Eitt fjölmargra dæma um gildi strandveiða fyrir hinar dreifðu byggðir.
Veiðileyfi til strandveiða gildir í fjóra mánuði á ári, maí – ágúst. Miðað við fjölda báta sem nú hafa hafið veiðar má gera ráð fyrir 13% fjölgun milli ára. Landssamband smábátaeigenda skynjaði fljótt upp úr áramótum aukinn áhuga á strandveiðum.
Vegna líklegra áhrifa Covid-19 ritaði LS sjávarútvegsráðherra bréf í lok mars og óskaði eftir því að hann beitti sér fyrir að veiðitíminn mundi ná til 12 mánaða. LS fékk stuðning við þá málaleitan frá bæjar- og sveitarfélögum sem leitað var til þó ekki væru þau öll inn á því að hafa veiðileyfið til 12 mánaða.
Ráðherra brást við beiðni LS með því að kynna í ríkisstjórn þann 30. apríl frumvarp um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Á fundi ráðherra með stjórn LS 15. maí greindi hann frá því að frumvarp frá honum væri í kynningu hjá þingflokkum stjórnarflokkanna. Þar væri m.a. lagt til að heimilað yrði að róa á sunnudögum og ef aflaheimildum hefði ekki verið náð í lok ágúst yrðu strandveiðar heimilaðar í september. Á fundinum lét hann þess getið að óvíst væri með framgang málsins þar sem það væri stopp í hans eigin þingflokki.
Þannig að gagn verði að þeim breytingum sem ráðherra leggur til í frumvarpinu er augljóst að auka þarf við viðmiðunarafla til strandveiða. LS hefur ritað ráðherra bréf og bent á leiðir til þess.
Ítrekað skal að eins og staðan er í dag þá verður Fiskistofu skylt að auglýsa í Stjórnartíðindum stöðvun strandveiða, þegar ljóst er að afli nær 10.000 tonnum af þorski eða 100 tonnum af gullkarfa. Líklegt er að þeim afla verði náð um mánaðamót júlí – ágúst.
Staðan er grafalvarleg.
Örn Pálsson