Nýverið samþykkti stjórn Fonts – félag smábátaeigenda á Norðusturlandi áskorun sem beint er til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Í henni er skorað á ráðherra að taka aftur upp svæðaskiptingu á afla til strandveiða og setja þær í fyrra horf.
„Áskorun um breytingu á reglugerð um strandveiðar 2000
„Stjórn smábátafélagsins Fonts á Norðausturlandi skorar á ráðherra sjávarútvegsmála að taka upp aftur svæðaskiptingu á afla til strandveiða og setja þær í fyrra horf.
Stjórn Fonts hefur miklar áhyggjur af að strandveiðar verði stoppaðar af í júlí ef ekki verður gripið til aðgerða. Mikil fjölgun hefur verið á bátum í strandveiðikerfið og gengur hratt á heildarpottinn þar sem mjög vel veiðist sunnan og vestanlands.
Stjórn Fonts vill benda á að fiskgengd á þeirra svæði C byrjar ekki fyrr en á seinni hluta strandveiða þ.e.a.s. í júlí ágúst. Með þeirri breytingu á fyrirkomulagi strandveiða að taka svæðaskiptingu afla af og gera strandveiðar að einum heildarpotti kemur C svæði mjög illa. Einnig má benda á að C svæði hefur ekki notið góðs af þeirri aukningu aflaheimilda síðustu ár sem komið hefur í heildarpott strandveiða og sama má segja með svæði B vegna þeirra breytinga sem gerðar voru þegar svæðaskipting á afla var tekin af.
Stjórn Fonts hefur bent á það áður að ekki gangi að hafa fyrirkomulag strandveiða í einum heildarpotti á meðan ekki sé öllum tryggður sami dagafjöldi þar sem veiðar eru misjafnar eftir svæðum yfir tímabilið og sé það mismunun fyrir þau svæði sem fiskgengd er á seinni hluta tímabilsins.
F.h. stjórnar Fonts
Einar E Sigurðsson, formaður