Sælir félagar,
Gunnar heiti ég. Eftir töluverðar vangaveltur hef ég ákveðið að gefa kost á mér til formanns Landssambands smábátaeigenda á komandi aðalfundi. Ég er menntaður farmaður og stunda nú nám við tölvunarfræðideild Háskólans í Reykjavík. Ég á og rek Skel 26 í strandveiðikerfinu. Strandveiðina hef ég stundað með námi og því er smábátaútgerð mér nærri hjarta. Ég hef einnig lagt stund á pólitík og náði þar lengst 2. sæti á lista í Norðvesturkjördæmi fyrir hönd Pírata árin 2016-2017. Ég er höfundur stefnu flokksins í sjávarútvegsmálum og lagði fram á þinginu sem ég sat frumvarp um strandveiðar.
Það er mér ofarlega í huga að málstaður LS verði áberandi á komandi misserum. Ekki síst vegna þess hvernig norðangarrinn úr sjávarútvegsráðuneytinu virðist við hvert færi narta af okkur einn mola í viðbót. Það er okkar hlutverk, sem ein sterkustu samtök sjávarútvegsins, að snúa vörn í sókn. Það er þeim ljóst sem til þekkja að framundan er kaldur vetur.
Í samráðsgáttinni liggja tvö mál sem bíða umsagna. Annars vegar niðurnjörvun félagslegu úthlutunarinnar sem ætla megi að standi til sex ára. Undir þessu ákvæði eru okkar helstu vaxtarsprotar nýliðunar í greininni. Það er skýrt að frumvarpið verður umdeilt og raunar augljóst að ætlunin er að geirnegla félagslega hlutann framyfir þarnæstu kosningar. Seinna málið varðar hrognkelsaveiðar, okkar síðasta frjálsa kost til sjósóknar. Það er mér ekkert launungarmál að um þetta verður deilt. Mörgum svíður enn eftir sumarið, það er því fullkomlega skiljanlegt að ekki sé sérstakur vilji fyrir endurtekningu.
Þeir sem fyrir austan eru fengu afburða grásleppuvertíð, góðar gæftir, raunar svo góðar að innanverður Breiðafjörður fékk vart rauðmaga í soðið. Eins og gengur hefndi þó vestrið fyrir grikkinn og launaði þeim í austri með skemmri strandveiðivertíð. Í báðum tilvikum gufuðu upp tonn úr bókhaldi ráðuneytisins eða tengdum stofnunum og í bæði skiptin fundust þau þegar það var of seint, skaðinn var skeður. Þessi vandræðagangur er mannanna verk.
Það væri mér því mikill heiður að fá tækifæri sem formaður Landssambands smábátaeigenda að leggja hönd á plóg og gera allt sem í mínu valdi stendur til að snúa þróuninni við.
Hingað og ekki lengra.
Nú þéttum við línuna öxl við öxl og sækjum sem einn. Framtíð greinar okkar er í húfi, sjáum nú til þess kæru félagar að næsta ár verði upphaf nýs vaxtarskeiðs.
Með fyrirfram þökk,
Gunnar Ingiberg Guðmundsson
<