Í samráðsgátt stjórnvalda er nú til kynningar og athugasemda frumvarp til laga um breytingu á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og lögum um stjórn fiskveiða (veiðistjórn grásleppu o.fl.). 200903 grásleppa.pdf
Megintilgangur frumvarpsins hvað varðar grásleppuna er að setja hana í aflamark og stjórna veiðum með kvótum. Til þess að svo verði þarf að gera breytingar á tvennum lögum. Annars vegar lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands er varðar sérreglur sem gilda um veiðarnar og hins vegar lögum um stjórn fiskveiða um framkvæmd úthlutunar er varðar mat á veiðireynslu og úthlutun aflahlutdeildar.
Aflahlutdeild verði á grundvelli veiðireynslu leyfisins sem skráð er á bátinn, en ekki á bát eins og gilt hefur um aðrar veiðar. Hún verði metin út frá þremur bestu veiðitímabilum, frá og með árinu 2013 til og með árinu 2018.
Þannig að félagsmenn geti betur áttað sig á veiðiheimildum sem þeir kunna að fá, verði frumvarpið óbreytt að lögum, hefur LS óskað eftir skrá frá Fiskistofu sem sýni aflahlutdeild hvers og eins. Samkvæmt henni gæti hver og einn reiknað út veiðiheimild – aflamark útfrá leyfilegum heildarafla.
Í frumvarpinu er ákvæði um að samanlögð aflahlutdeild í eigu einstakra aðila, einstaklinga eða lögaðila eða í eigu tengdra aðila megi ekki vera hærri en 2%.
Staðbundin veiðisvæði
Í 1. gr. frumvarpsins er ráðherra heimilt með reglugerð að ákveða staðbundin veiðisvæði við grásleppuveiðar, þannig að aðeins geti þar stundað veiðar bátar sem skráðir séu frá byggðarlagi við hlutaðeigandi veiðisvæði og útgerð bátsins eigi þar heimilisfesti. Ákvæðið er sett inn til að mæta sjónarmiðum Hafrannsóknastofnunar ef aðstæður kalla á aukna stýringu.
Jafnframt er bent á að 2. mgr. 7. gr. laga um veiðar í fiskveiðilandhelginni heimila að leyfisbinda veiðar á grásleppu á tilteknum svæðum, þar sem aðeins takmarkaður fjöldi skipa hefði leyfi til veiðanna.
Rétt er að vekja athygli á að þessir tveir plástrar sem aflamark á grásleppu leiðir af sér hefur ekki verið vandamál við núverandi stjórnun veiðanna.
Atvinnufrelsi og eignaréttur
Tilvitnanir eru teknar úr 4. kafla frumvarpsins „Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
„Í núgildandi lögum eru grásleppuveiðar takmarkaðar við ákveðinn hóp sem rétt hefur til að stunda þær veiðar á grundvelli opinbers leyfis. Um það bil 450 bátar hafa rétt til að fá leyfi til veiða á grásleppu.
„Verði frumvarp þetta að lögum munu einungis þau skip sem hafa rétt til grásleppuveiða sem nýtt hefur verið á því tímabili sem afmarkað er í bráðabirgðaákvæðinu fá úthlutað aflahlutdeild. Verður atvinnuhagsmunum þeirra því ekki raskað með frumvarpinu. Þeir sem engar grásleppuveiðar hafa stundað á viðmiðunartímanum munu engan rétt öðlast til úthlutunar. Veiðireynsla er það viðmið sem stjórnvöld hafa lagt til grundvallar þegar takmarka á aðgang að fiskveiðiauðlindinni. Aðili sem ekki hefur stundað grásleppuveiðar á viðmiðunartímanum en leiðir rétt sinn af framangreindu ákvæði verður ekki talinn geta haft réttmætar væntingar til þess að veiðistjórn í grásleppu verði ekki breytt til samræmis við fiskveiðistjórn helstu nytjastofna Íslands eða að leyfi sem ekki eru nýtt sem slík leiði af sér rétt við slíkar breytingar..
Aflamark
Með úthlutuðu aflamarki á grundvelli aflahlutdeildar eru nokkur ákvæði sem ekki eru í núverandi veiðistjórnun. Meðal þeirra eru að heimilt verður að framselja aflahlutdeild og flytja aflamark milli báta, að flytja ónýttar veiðiheimildir milli fiskveiðiára allt að 15% af úthlutuðu aflamarki, tegundatilfærsla heimiluð, veiðiskylda og greiðsla á veiðigjaldi.