Árborg krefst þess að tryggðir verði 48 dagar

Aðalfundur Árborgar var haldinn 22. september sl.  Stefán Hauksson formaður félagsins kom víða við er hann ávarpaði fundargesti.  
IMG-3028 (1).png
Meðal þess var að óska félagsmönnum til hamingju með nýjan ramp til að sjósetja smábáta sem tekinn var í notkun í vor sem leið.   Þakkaði Sveitarfélaginu Ölfusi fyrir gott framlag sem stuðla mundi af eflingu smábátaútgerðar frá Þorlákshöfn.  Það kæmi sér vel þar sem árlega væri félagsmönnum að fjölga.  
Vorið var óvenju líflegt, vel veiddist hjá þeim 21 handfærabátum sem réru frá Þorlákshöfn í maí og fram í júní.  Þó tíðarfar hafi verið erfitt framan af, náðu menn skammtinum á örskotsstund.
Stefán lauk máli sínu með að greina frá því að fjórir ÁR bátar væru á topp 10 lista strandveiðibáta á D-svæði.  
Steinunn ÁR varð aflahæst yfir landið með 46.119 kg.  Hann óskaði Gísla Unnsteinssyni skipstjóra til hamingju, sem fylgt var eftir með öflugu lófaklappi fundarmanna.
Ályktanir Árborgar til 36. aðalfundar LS
    • Aðalfundur Árborgar mótmælir harðlega kvótasetningu á grásleppu.
    • Aðalfundur Árborgar krefst þess að tryggðir verði 48 dagar til veiða á strandveiðum.
    • Aðalfundur Árborgar krefst þess að komið verði á handfæraívilnun á báta undir 30 tonnum.
    • Aðalfundur Árborgar krefst þess að ef strandveiðipotturinn klárast fyrir lok ágúst, þá falli strandveiðileyfi úr gildi og aðilar fái heimild til veiða í afla- eða krókaaflamarki. 
    • Aðalfundur Árborgar lýsir andstöðu við að leyfðar verði netaveiðar í krókaaflamarkskerfinu.
    • Aðalfundur Árborgar mótmælir harðlega skerðingu á afla til línuívilnunar.
    • Aðalfundur Árborgar hvetur til að sjómannaafsláttur verði endurvakinn.
    • Aðalfundur Árborgar krefst þess að heimilt verði að selja mótframlag byggðakvóta á fiskmarkaði ef vinnslan neitar að taka við aflanum.
    • Aðalfundur Árborgar krefst þess að svæðaskipting á strandveiðum verði afnumin og landið verði gert að einu veiðisvæði.
    • Aðalfundur Árborgar krefst þess að heimavigtunarleyfi verði afnumið.
    • Aðalfundur Árborgar krefst þess að löndunargjöld af strandveiðum verði þau sömu og hjá stærri útgerðinni.  
Stjórn Árborgar
Stefán Hauksson formaður
Eggert Unnsteinsson varaformaður
Gísli Unnsteinsson gjaldkeri  
Dagný Erlendsdóttir ritari  
Sigurður Viggó Guðmundsson meðstjórnandi