Krókur fordæmir slælega stjórnun grásleppuveiða

Aðalfundur Strandveiðifélagsins Króks var haldinn á Patreksfirði 25. september sl.  Að vanda voru umræður fjörugar þar sem skoðanir félagsmanna fengu að njóta sín.
Kvótasetningu hafnað
Einhugur var á fundinum að hafna með öllu frumvarpi sjávarútvegsráðherra um að stjórna grásleppuveiðum með aflamarki.  Kosið var um hvort menn væru hlynntir kvótasetningu,  já = 0 atkvæði  /  nei = 14 atkvæði.
Strandveiðifélagið Krókur hafnar öllum hugmyndum um kvótasetningu á grásleppu.

Kolga.png
Byggðakvóti og línuívilnun
Í umræðum um frumvarp sjávarútvegsráðherra um atvinnu- og byggðakvóta kom fram mikil gagnrýni á uppsetningu varðandi skiptingu 5,3% pottsins.  Menn töldu hana ruglingslega, m.a. að skiptingin væri ekki útskýrð með tölum sem sýndu hvernig hún hefði orðið miðað við veiðiheimildir á yfirstandandi fiskveiðiári.  
Fundurinn sammála um að kvika ekki frá samþykkt aðalfundar LS 2019 að allir dagróðrabátar fengju línuívilnun.
Strandveiðifélagið Krókur leggur til að línuívilnun verði haldið fyrir línubáta og hlutfall hennar aukið í samræmi við ályktanir LS; 30 % fyrir handbeitta línu, 20 % sé lína stokkuð upp í landi og 10 % fyrir vélabáta.
Strandveiðar og Fjórðungssamband Vestfjarða
Umsögn Fjórðungssambands Vestfjarða við frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða (atvinnu og byggðakvótar o.fl.) var tekið fyrir og vakti hörð viðbrögð vegna ummæla um breytingartillöguna er varðar strandveiðar. Enginn kannast við að hafa heyrt um nokkurn á Vestfjörðum sem vill hverfa aftur til fyrra kerfis og spurt var hvort Fjórðungssamband Vestfjarða væri ekki fyrir Vestfirðinga? 
Strandveiðifélagið Krókur leggur til að tryggðir verði 48 dagar í strandveiðikerfið, svæðisskipting verði afnumin og ráðherra verði heimilt að banna sókn á rauðum dögum.
Afladagbókarapp
Strandveiðifélagið Krókur leggur til að undanþága fyrir „eldri menn verði leyfð varðandi notkun afladagbókarappsins og krefst auk þess að það verði einfaldað til muna. 
Stjórn Strandveiðifélagsins Króks
Einar Helgason formaður
Halldór Árnason varaformaður
Friðþjófur Jóhannsson gjaldkeri og ritari