Verðum að standa saman

Á aðalfundi LS hvatti Örn Pálsson framkvæmdastjóri félagsmenn til að standa saman.  Það væri forsenda þess að árangur næðist í baráttunni fyrir auknum veiðirétti.
Örn kom víða við í ræðu sinni á fundinum.  Hann sagði það sína skoðun að línuívilnun á alla dagróðrabáta væri fyrir löngu komin á hefðu gamlir og gildir landssambandsmenn ekki kosið segja sig úr LS.
ÖP - ljósmyndari Haraldur Guðjónsson.png
Hér er nokkrar tilvitnanir úr ræðu Arnar.
„Sjávarútvegsráðherra lét ekki þar við sitja heldur túlkaði lögin öndvert við atvinnuveganefnd Alþingis þegar hann skerti veiðiheimildir til strandveiða um eitt þúsund tonn.
„ Á síðustu metrum strandveiða 2020 tókst að kreista út 720 tonn af þorski.   LS er að sjálfsögðu ánægt með það enda tryggði það þeim sem voru að róa á strandveiðum í ágúst aflaverðmæti upp á hartnær 300 milljónir.
„Ég fylgi skoðun ykkar um að strandveiðar verði best tryggðar með 48 óskertum dögum, allt annað er óásættanlegt og við eigum ekki að kvika frá þeirri kröfu – hún er sanngjörn og þjóðinni og hinum dreifðu byggðum til heilla.  Smell passar við höfuð markmið fiskveiðistjórnunarlaganna 
„að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra (nytjastofn á Íslandsmiðum) og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu

„Allir vita hvernig fór með síðustu grásleppuvertíð.  Vegna óstjórnar misstu  40 til 50 bátar af vertíðinni.  Ráðherra hafði stöðvað veiðar án þess að gera tilraun til að jafna fjölda daga milli aðila.  Meira að segja var svo langt gengið þvert á reglugerð að heimila aðeins völdum bátum veiðar í ákveðinn fjölda daga, en skilja aðra eftir án réttinda.
„Við grásleppumálið bætast við aðrir erfiðleikar sem tengdir eru sölumálum.  Hrun hefur orðið á verði á frosinni grásleppu, helmingslækkun í dollurum talið, útflutningur saltaðra grásleppuhrogna aðeins 29% í magni talið á vertíðartímanum.  Það er aðeins kavíarinn sem dregur vagninn.  Þar hefur verð hækkað en magnið á tímabilinu janúar – ágúst er þriðjungi minna en á sama tíma í fyrra.  Því miður er útlitið ekki bjart þ.s. í hönd fer aðal sölutími ársins og ekkert útlit fyrir að veiran ætli að láta undan fyrir þann tíma.