Aðalfundur Félags smábátaeigenda á Austurlandi var haldinn á Egilsstöðum þann 8. október 2020. Nokkur óvissa var um hvort fundurinn yrði haldinn þar sem fundarþátttaka mátti ekki fara umfram 20 vegna sóttvarnareglna.
Fyrir fundinum lá fyrir að taka afstöðu til tillagna sem stjórn félagsins hafði unnið.
Umhverfisívilnun
Í umræðu um línuívilnun voru fundarmenn á einu máli um að hana ætti eingöngu að nota til veiða með línu og handfærum. Öllum hugmyndum um færslu hennar til annarra potta innan 5,3% var harðlega mótmælt. Hér væri um umhverfisívilnun að ræða, enda kolefnisspor við krókaveiðar mun minna en við veiðar dreginna veiðarfæra og áhrif veiðanna á botn og botndýr óveruleg.
Byggðakvóti
Talsverð umræða var um byggðakvóta og voru flestir fundarmanna á því að almennt hefði hann gegnt hlutverki sínu á félagssvæðinu. Samþykkt var að beina því til stjórnvalda að honum verði úthlutað sem ívilnun við löndun, með því yrði tryggt að byggðakvóti verði eingöngu notaður til fiskveiða.
Strandveiðar
Samþykkt var að hafna frumvarpsdrögum til strandveiða, sem verið hafa til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Lögð verði áhersla á að hverfa til reglna sem giltu árið 2017, skipting aflaheimilda fari eftir hlutfallslegri meðalveiði svæðanna sl. 10 ár.
Grásleppuveiðar
Eining var meðal fundarmanna um að hafna hugmyndum um kvótasetningu á grásleppu. Við lagfæringu á núverandi veiðistjórn væri brýnt að heimilt yrði að gera hlé frá veiðum. Til dæmis ef von er á stórbrælu eða í þeirri von að þorskur gangi af veiðislóð.Fundurinn fordæmdi vinnubrögð ráðherra varðandi veiðistjórn á vertíðinni 2020.
Auk þess sem hér hefur verið greint frá var aðalfundur Félags smábátaeigenda á Austurlandi andvígur að heimila krókaaflamarksbátum veiðar með þorskanetum.
Þungum áhyggjum lýst vegna þróunar sæbjúgnaveiða þar sem sífellt stærri og öflugri skip væru notuð til veiðanna. Sem dæmi er lágmarks þyngd sæbjúgnaplógs eitt tonn. Rannsóknir af áhrifum veiðanna á botndýr, botn og búsvæði fiska væru í skötulíki.
Hvalveiðar voru ræddar og stuðningi lýst við áframhaldandi ábyrgar veiðar á hvölum.
Rætt var um sívaxandi ágengni togveiða á grunnslóð. Brýnt væri að afnema allar undanþágur um veiðar með botntrolli innan 12 sjómílna.
Að lokum samþykkti fundurinn að keiluhólf sem lokað væri fyrir línuveiðum yrði tafarlaust opnað.
Stjórn FSA
Guðlaugur Birgisson formaður, DjúpavogiAlfreð Sigmarsson SeyðisfirðiElís Pétur Elísson BreiðdalsvíkKári Borgar Ásgrímsson Borgarfirði eystriÓlafur Hallgrímsson Borgarfirði eystriSævar Jónsson varamaður í stjórn, Neskaupstað