Samstaða í boði – forystan sundrar

Til formanns frá félagsmanni
Undirritaður er búinn að vera viðriðinn sjómennsku og  útgerð til áratuga; eða allt frá blautu barnsbeini.  Hefur sömuleiðis kynnst og tekið þátt í víðfeðmu félagsstarfi sjávarútvegs, ferðaþjónustu og hefðbundinnar pólitíkur.  Gerðist meðlimur í LS fyrir margt löngu en fylgst með úr fjarlægð, þar til á undanförnum misserum.  Undanfarin tvö til þrjú ár hefur áhuginn vaxið á þeim málefnum sem þar hafa komið á borðið; en þó ekki síður fyrir þá grímulausu einstefnupólitík sem rekin hefur verið af framkvæmdastjóra og formanni undanfarið ár eða svo, í málefnum grásleppuveiða. 
SG.png
Eftir aðalfundinn 2019 hafði undirritaður samband við framkvæmdastjóra LS og hvatti hann góðfúslega til þess að breyta fyrirsögn í frétt sem þá var komin
á vef samtakanna. Þar stóð:  „Afgerandi meirihluti félagsmanna á móti aflamarki í grásleppu.  
Hið rétta var að tveimur atkvæðum munaði í atkvæðagreiðslum og rétt fyrirsögn hefði verið: „Naumur meirihluti gegn aflamarki…..og jafnvel innan skekkjumarka. Framkvæmdastjórinn tók vel í ábendingu undirritaðs en allt kom fyrir ekki. Engin breyting gerð.
Ítrekað hefur ráðherra sjávarútvegsmála fengið blammeringar frá framkvæmdastjóra og formanni LS í ræðum og riti frá þessum tíma.  Á sama tíma hefur formaður atvinnuveganefndar verið hafinn upp til skýjanna.  Merkileg pólitík til tveggja ríkisstjórnarflokka og ekki vænleg til árangurs.
Ályktanir síðustu aðalfunda svæðisfélaga voru birtar að því er virtist eftir hentugleika á fréttasíðu LS. 
Fyrri hluti aðalfundar LS þessa árs er afstaðinn.  Þar var lítið rætt um grásleppuveiðar og aflamark en augljóst að það yrði stærsta málið fyrir síðari umferð aðalfundar.  Undirritaður taldi að um tvær hnífjafnar fylkingar væri að ræða, með og á móti, samkv. fyrri umræðu og einhliða fréttaflutningi LS.  Þó var augljóst af könnun sem gerð hafði verið með aðstoð Gallup að u.þ.b. 53% meirihluti þeirra sem höfðu mesta hagsmuni af grásleppuveiðum og stundað þær umfram aðra, vildu grásleppuna í aflamark. 
Undirritaður gagnrýndi formanninn nýlega fyrir það að hafa stigið ógætilega í annan vænginn í stað þess að finna lausnir á ólíkum hagsmunum.  Það var sömuleiðis skrítið að frétta af ykkur félögunum læðast inná nokkra af aðalfundum svæðisfélaganna um daginn…í nafni COVID 19 og sá þar fræjum sem gætu ávaxtað ykkar eigin skoðanir og pólitík. Síðast fórstu bakdyramegin inn hjá hreinræktuðum strandveiðimönnum í Þorlákshöfn. Fyrsta lína í þeirra ályktun aðalfundar var að lýsa andstöðu við aflamark grásleppu.  Ekki sérstaklega til að vera á móti þeirri tegund veiðistjórnunar  – heldur aðallega til að passa eigin hagsmuni í strandveiðunum og ímynduðum afleiðingum í bátafjölda. Gæta eigin „sérhagsmuna allan hringinn og fara gegn okkar hagsmunum í grásleppunni. 
Formanni til upplýsinga, þá tók undirritaður nýlega þátt í að safna undirskriftum við frumvarp sjávarútvegsráðherra. Þó ekki væri nema bara fyrir þær sakir að fá frumvarpið til efnislegrar umræðu í Alþingi.  Án þess kæmumst við hvorki lönd né strönd með einhverja niðurstöðu.  Vægt til orða tekið, voru undirtektir framar öllum okkar villtustu vonum og ekki ólíklegt að rúm 80% svarenda hafi stutt við frumvarpið. Skilaboðin skýr:  Dagakerfið hefur gengið sér til húðar.
Þorlákur Halldórsson formaður – ég sem félagsmaður; frábið mér slíkan rakalausan þvætting og dylgjur, sem þú setur fram í nýjum pistli á vef LS.  Þar leggur þú bæði okkur og ráðherra orð í munn sem fá ekki staðist frekari skoðun.  Það setur þig skör neðar í embætti og trúverðugleika. Þú ert sá sem hleypur undan merkjum og veldur allri þeirri sundrung sem þér er tíðrætt um.  
Það er líka afskaplega dapurt að vita til þess að alvöru menn og konur um land allt hafi sagt skilið við LS í tuga tali á undanförnum misserum og von á frekari þróun í þá veruna; vegna axarskapta þinna og framkvæmdastjórans.  Dreg orðið stórlega í efa að þið séuð vandanum vaxnir í þessu tiltekna máli.  Skrif þín bera þess glöggt merki.
Virðingarfyllst
Stefán Guðmundsson 
Húsavík 
félagsmaður í LS