Kröftug umræða hefur átt sér stað meðal félagsmanna um kosti og galla þess að breyta veiðistjórn á grásleppu. Sjávarútvegsráðherra hefur kynnt í ríkisstjórn frumvarp þar sem lagt er til að í stað þess að stýra veiðum á grásleppu með dagafyrirkomulagi verði aflamark tekið upp. Frumvarpið er nú til kynningar í þingflokkum ríkisstjórnarinnar.
Eins og frumvarpið var kynnt í samráðsgátt verður hverjum og einum grásleppubát úthlutað aflahlutdeild sem tekur mið af veiðum hans á þremur árum á 6 ára tímabili 2013 – 2018. Aflahlutdeildin ákveður aflamark – kvóta á hverri vertíð.
Samkvæmt frumvarpinu eiga 450 bátar rétt á aflahlutdeild. Af þeim eru 96 bátar sem fá enga hlutdeild þar sem engin afli var á viðmiðunartímabilinu. Þeir sem eftir standa mundu skipta með sér leyfilegum heildarafla, eftir að 5,3% hafa verið dregin frá, samkvæmt hlutdeild hvers og eins.
Hefði kvótasetning komið til framkvæmda á síðustu vertíð hefði aflamark þeirra 354 báta orðið 14,1 tonn á bát.
Tölur frá síðustu vertíð
Á vertíðinni 2020 voru óvenju fáir bátar sem stunduðu veiðarnar eða alls 201 sem orsakaðist að stöðvun veiða frá og með 3. maí. Ætla má að nokkrir tugir báta hafi þannig misst af vertíðinni og aðrir ekki fengið að veiða nema í nokkra daga af þeim 44 sem heimilað var. Meðaltal fjölda báta á grásleppuveiðum undanfarinna 9 ára, 2011 – 2019 er 256.
Heildarafli á vertíðinni 2020 varð 5.266 tonn að meðaltali 26,2 tonn á bát sem er 37% yfir meðaltali 9 ára þar á undan (19,2 tonn).