Lífskjör tuga aðila í húfi

Reykjanes – félag smábátaeigenda á Reykjanesi hefur sent Kristjáni Þór Júlíussyni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra bréf þar sem krafist er að hann banni togurum veiðar að fjórum sjómílum frá Sandgerði.  Bannaðar verði allar veiðar með fiskibotnvörpu á svæði suður af Reykjanesskaga og svæði út af Faxaflóa (línu réttvísandi vestur frá Sandgerðisvita).
Í niðurlagi bréfsins segir eftirfarandi: 
„Smábátaeigendur sjá útgerð hjá sér hrynja í einu vetfangi verði þessar veiðar heimilaðar deginum lengur.  Veiðislóð verður þurrkuð upp á örskömmum tíma þannig að ekkert mun veiðast þar í langan tíma verði veiðar þessa flota látnar viðgangast.  Svæðið hefur verið nýtt af smábátum svo lengi sem menn muna og veitt fjölda manns atvinnu.  Bátar frá Suðurnesjum hafa ekki annað veiðisvæði úr að moða á þessum tíma árs.

Eins og þér sjáið er bréf þetta ritað í mikilli geðshræringu, enda lífskjör tuga aðila í húfi.  Þér þurfið því að bregðast skjótt við óskum okkar smábátaeigenda sem gerum út frá höfnum þar sem fjórði hver atvinnufær maður er án atvinnu.


Eyþór Reynisson formaður Reykjaness ritar undir bréfið.