Trillukarlar í stórsjó

Greinin sem hér birtist er eftir Georg Eið Arnarson Vestmannaeyjum, félagsmann í Farsæli og Landssambandi smábátaeigenda.
Trillukarlar í stórsjó
Það má svo sannarlega segja það að sótt sé að trillukörlum úr öllum áttum þessar vikur og mánuði og eins og svo oft áður af sjávarútvegsráðherrum Sjálfstæðis- eða Framsóknarflokks.
En það er mín skoðun að ef kvótasetning á grásleppu verði að veruleika, þá sé þar stigið risastórt skref í átt að því að útrýma trillukörlum.
Upphafið
Landssamband smábátaeiganda, LS, var stofnað 1985 vegna þess að þá lágu fyrir hugmyndir sem klárlega hefðu lagt niður trilluútgerð á Íslandi. 
goggi_minni (1).png
Sjálfur byrjaði ég í trilluútgerð haustið 1987 og hef því verið viðlogandi þetta svo til allan tímann. Baráttan var oft erfið á þessum fyrstu árum en það er mín skoðun, að þorskaflahámarkskerfið, þar sem trillur gátu róið frjálst í allar tegundir nema þorsk, þurftu bara kvóta fyrir þorskinum, sé besta kerfið sem a.m.k. ég hef upplifað á ferlinum, enda voru þetta mestmegnis litlir bátar þar sem veðrið hafði afar mikið að segja, en um leið var þá hægt að veiða tegundir sem í mörgum tilvikum hafa algjörlega hrunið eftir kvótasetningu.
Aðferðin við kvótasetningu
Það var Árni M. Matthiesen sem tók þetta kerfi af 1998 og hófst þá mikil fækkun smábáta þá þegar. 2004 er síðan dagakerfið afnumið og notuð sama aðferð og við höfum séð svo oft á undanförnum árum, en dögunum var einfaldlega fækkað þangað til að trillukarlarnir sjálfir fóru að heimta kvótasetningu út á aflareynslu. 
Sama sáum við með makrílinn. Þá var settur á pottur sem kláraðist meðan ennþá var bullandi veiði og að sjálfsögðu fóru þeir sem komnir voru með mestu veiðireynsluna fram á að fá frekar kvóta.
Þetta sama sjáum við vera að gerast núna með grásleppuna. Hafró býr til einhverja bull tölu um áætlaða hámarksveiði og ráðherra lætur síðan höggið ríða og eyðileggur grásleppuvertíðina í vor algjörlega fyrir fjölmörgum trillukörlum. 
Allar þessar aðgerðir eru meira og minna gerðar gegn skoðunum og stefnu LS, en það er auðvelt að setja sig í spor trillukarla sem fjárfest hafa í veiðarfærum og búnaði, en fá svo allt í einu ekki að róa. Þetta er að sjálfsögðu besta aðferðin, eins og sagan hefur sýnt sig, til að fá menn til þess að heimta kvóta og taka þar með undir skoðanir ráðherra.
Það er að mínu mati augljóst, að verði af þessari kvótasetningu á grásleppunni, þá munu margir fá svo lítið að það borgar sig ekki að fara af stað. Aðrir munu bara selja þannig að grásleppan verður að óbreyttu enn einn stofninn sem verður vannýttur á fiskimiðunum okkar.
georg_trilla_opf.png
Fer strandveiðikerfið sömu leið?
Alveg klárlega mun þetta þýða það að enn fleiri munu færa sig yfir í núverandi strandveiðikerfi, sem aftur gefur auga leið að muni þá bara springa. 
Þorskstofninn er, samkvæmt nýjustu mælingum Hafró, á niðurleið þriðja árið í röð. Það verður því klárlega þrýstingur frá stórútgerðinni að aflaheimildir í strandveiðum verði ekki auknar og nú þegar sér maður að umræðan er farin að snúast um það hjá sumum sem komnir eru með góða veiðireynslu á strandveiðum síðustu ár, að þá sé kannski best að fá bara kvóta. 
Það er stefnan sem skiptir máli
En hvers vegna er þetta svona?
Veruleikinn er sá, að áður en aflaheimildum á Íslandi er úthlutað þá eru dregin af þeim 5,3%. Inn í þeirri tölu eru strandveiðar, línuívilnun, byggðakvóti og sérstakur byggðakvóti.
Undanfarin 20 ár eða svo hef ég mætt á ótal fundi þar sem sjávarútvegsmál hafa verið til umræðu og ég hef einfaldlega enga tölu á því hversu oft hagsmunaaðilar hafa borið upp þessa spurningu við bæði ráðherra og þingmenn:
Hvenær ætlið þið að skila okkur þessum 5,3%?

Og meira að segja, fyrir örfáum árum lét fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins úr Grindavík hafa það eftir sér að hann myndi nú gera það bara strax ef hann réði öllu.
Þess vegna segi ég það hér og nú, að fólk sem að unnir trilluútgerð og trillukörlum hvar sem er á landinu það þarf að hafa þetta í huga um næstu kosningar. Það er augljóst hvaða flokkar hafa unnið skipulega að því að útrýma trillukörlum. Vissulega eiga trillukarlar stuðningsmenn í öllum flokkum, en það er stefnan sem skiptir máli.
Setjið X við trillukarla
Því miður er það þannig að mörg bæjarfélög hafa farið afar illa út úr núverandi kvótakerfi og veruleikinn er sá, að kvótakerfið hefur aldrei skilað því sem það átti að gera ef alltaf væri farið eftir tillögum Hafró, sem alltaf hefur verið gert. 
Kerfið mun því lifa áfram vegna hagsmunaaðila og bankana og skiptir engu máli þó svo að það sé nú bara staðreynd, að það voru trillukarlar sem byggðu upp bæjarfélög eins og Vestmannaeyjar á sínum tíma.
Í dag er sótt að trillukörlum úr öllum áttum og bara þessi síðasti rúmlega áratugur hefur sýnt það og sem dæmi, stækkun smábáta upp í þessa 15 metra báta, sem eru að sjálfsögðu engar trillur í dag. Þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði einu sinni við mig að hann hefði samþykkt þessa stækkun út frá öryggissjónarmiði, en ég spáði því á sínum tíma að þetta yrði sá bátaflokkur sem myndi kaupa upp alla þessa litlu og síðan yrði þeim róið svo stíft, að þetta yrði sá bátaflokkur sem oftast myndi lenda í því að stranda eða keyra sofandi upp í fjörur, eins og dæmi hafa sýnt.
Færsla á veiðigjöldum yfir á leiguliðana er staðreynd og mér skilst að samhliða kvótasetningu á grásleppu eigi líka að skerða aflaheimildir til línuívilnunar.
Því skora ég á alla þá sem unna trillum og trillukörlum að setja einfaldlega X við trillukarla næsta haust.
Höfundur: Georg Eiður Arnarson
Georg Eiður Arnarson, fæddur 1964, af Skjaldbreiðarætt. 
Foreldrar Margrét H. Júlíusdóttir og Örn W. Randrup, 
giftur Matthildi Maríu Tórshamar, 4 börn, 1 hundur og 2 kettir, trillu útgerðarmaður. 
Áhugamaður um allt sem tengist sjávarútvegi, náttúru og atvinnumálum. 
Missi helst ekki af heimaleik hjá ÍBV á sumrin og er aðeins farinn að fikta við sjóstangaveiði.