Þann 20. janúar fór fram á Alþingi 1. umræða um „
Grásleppufrumvarpið, þ.e. frumvarp um breytingu á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og lögum um stjórn fiskveiða (stjórn veiða á grásleppu, sandkola og hryggleysingja)
Varðandi stjórn veiða á grásleppu gerir frumvarpið ráð fyrir aflamarki, kvóta á hvern bát, í stað ákveðins fjölda daga sem hver bátur hefur heimild til að stunda veiðarnar.
Hér á eftir fer útdráttur úr ræðum og andsvörum við 1. umræðu frumvarpsins. Með því að blikka á nöfn ráðherra og þingmanna má hlusta á ræðurnar.
Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra mælti fyrir frumvarpinu. Hann sagðist ánægður með að það væri nú komið til efnislegrar umræðu. Ráðherra gerði grein fyrir helstu atriðum frumvarpsins og vænti þess að hægt yrði að klára málið fyrir komandi vertíð.
- Hverjum báti sett aflahlutdeild miðað við veiðireynsla af þremur bestu veiðitímabilum af sex frá og með 2014 til og með 2019 á því leyfi sem skráð er á viðkomandi bát.
- Hámarksaflahlutdeild verði 2%.
- Ráðherra hafi heimild til að undanskilja grásleppu frá ákvæði um veiðiskyldu með reglugerð leiði markaðsaðstæður til að ekki sé réttlætanlegt að halda til veiða.
- Ráðherra verði heimilt með reglugerð að ákveða staðbundin veiðisvæði við grásleppuveiðar ef aðstæður leiða til þess að æskilegt verði að svæðisskipta veiðunum.
Guðjón S. Brjánsson veitti andsvar við ræðu ráðherra og spurði: Hver er nauðsyn þessa og hver er sú sýn sem ræður því að kvóta er nú skellt á grásleppuna? Jafnframt hvort aðrir kostir hafi verið metnir?
Guðjón vakti athygli á sérstöðu grásleppuveiða, þær væru bundnar ákveðnum átthagaböndum og tengjast menningarlegri hefð og spurði hvort ekki væru líkur á því að með framsali þjappist heimildirnar á færri hendur eins og gerst hefði?
Kristján Þór Júlíusson sagði frumvarpið sprottið upp úr
tillögu sem starfshópur hefði unnið. Grásleppusjómenn kölluðu eftir meiri fyrirsjáanleika og hefðu 244 grásleppusjómenn kallað eftir að takast á við það veiðifyrirkomulag sem lagt væri til í frumvarpinu.
Hann sagði í dag vera 449 báta sem mættu stundu grásleppuveiðar. Á síðustu vertíð hefðu ekki nema 209 bátar verið á veiðum og hafði fækkað um rúmlega 100 á tíu árum.
Guðjón S. Brjánsson sagði grásleppuveiðar vera gríðarlega mikilvægar fyrir atvinnu í hinum dreifðu byggðum. Kvótasetning gæti bitnað harðast á þeim sem eru veikastir fyrir.
Hann ítrekaði spurningu um hvort aðrir kostir hefðu verið metnir? Jafnframt hvort gerð hefði verið samfélagsleg úttekt á byggðirnar sem þessar breytingar hefðu í för með sér.
Kristján Þór Júlíusson sagði að með frumvarpinu væri verið að koma veiðistjórnun á þann stað sem sérfræðingar í sjávarútvegi telja góðan, að ráðgjöf og nýting fiskistofna fari saman. Dæmi væri um 20% framhjáskot frá ráðgjöf.
Reynslan frá síðustu vertíð sýnir að kerfið er slæmt þar sem hann hefði neyðst til að stöðva veiðar á miðri vertíð til að halda veiðunum innan ráðgjafar.
Halla Signý Kristjánsdóttir lagði áherslu á að réttur minni útgerð og byggða yrði tryggður. Grásleppuveiðar væru stundaðar víða um land.
Sagði samþjöppun óhjákvæmilega og nýliðar nú geta síður byggt sig upp til að stunda útgerð.
Halla Signý vitnaði í umsögn Halldór R. Stefánssonar á Þórshöfn stjórnarmanns í LS.
Hann telur að samþjöppun verði óumflýjanleg með kvótasetningu veiðanna líkt og gerst hafi á skömmum tíma í öðrum kvótasettum tegundum. Samþjöppun muni leiða til þess að nýliðar sem nú sjái möguleika í að afla grásleppuleyfis og taka þátt í strandveiðum með það í huga að byggja upp lífvænlegan rekstur muni síður geta það ef krafa verður um að kaupa aflaheimildir í grásleppu.
Orðrétt úr umsögn Halldórs:
„Eins og málum er nú fyrir komið þá eru í raun tvö kerfi sem gera nýliðum kleift að koma sér upp útgerð, þ.e. strandveiðar og grásleppuveiðar. Undirritaður telur það skjóta skökku við að nú skuli eiga að taka annað þessara kerfa og kvótasetja og þannig minnka möguleika ungra manna til athafna.
Undirritaður hefur verið á grásleppu til áratuga og séð grásleppustofninn sveiflast mikið til milli ára. Ekki verður í fljótu bragði séð hvernig á að vera hægt að nýta kvótasetningu til að stýra veiðum á svo sveiflugjörnum stofni. Í það minnsta telur undirritaður ljóst að kvótasetning grásleppu krefjist mikilla rannsókna og ekki ómögulegt að hún muni leiða til ofveiði í vondum árum.
Halla Signý vakti athygli á að þegar frumvarpið fór í gegnum þingflokk Framsóknarflokksins hafi hún gert fyrirvara við það og bókað eftirfarandi:
„Frumvarp þetta gerir ráð fyrir að aflamarksstjórn verði tekin upp við veiðar á grásleppu. Ekki hafa verið færð nægjanleg rök fyrir því að setja aflamark á grásleppu. Smærri byggðir um land allt byggja á blandaðri sjósókn smábátaútgerða og gæti þetta bæði torveldað nýliðun í greininni auk þess sem hætta er á samþjöppun í hrognkelsaveiðum og þá á kostnað minni byggðarlaga. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að hámark megi aldrei nema hærri hlutfalli af heildaraflahlutdeild en 2% og mætti vera minna til þess að koma í veg fyrir samþjöppun í greininni og kvótasetning er vandmeðfarin og flókin ef gæta á jafnræðis milli byggðarlaga og útgerða.
Þau rök hafa verið notuð með kvótasetningu á grásleppu að meðafli á veiðum með grásleppu sé vandamál og gæti valdið því að ef ekkert yrði gert gæti það skaðað sjávarútveginn í heild sinni þar sem bandarísk yfirvöld hafa boðað bann á innflutningi á sjávarafurðum þar sem sjávarspendýr er meðafli veiða. Það er vissulega áhyggjuefni en ekki verður séð að kvótasetning sé upphafið og endirinn á þeim vanda og hefur ekki verið leitað annarra leiða til að vinna á því vandamáli. Til eru aðrar veiðistjórnunaraðferðir sem mætti útfæra með það að markmiði að ná utan um þann vanda og að grásleppuveiðum verði sett umgjörð sem að fellur að uppbyggingu sjálfbærra fiskistofna.
Í upphafi ræðunnar sagði hún að þingflokkur Vinstri grænna hafa haft fyrirvara á þessu máli og yfir höfuð ekki vera hlynntur kvótasetningu á grásleppu. Það hefur legið lengi fyrir svo að okkur þykir að þarna sé verið að boða miklar breytingar á þeim hluta kerfisins sem er félagslegi hlutinn, og það stefni allt í það að í framhaldinu verði mikil samþjöppun, að það borgi sig ekki að gera út miðað við aflareynslu.
Sagði þingflokkinn óttast að margir muni heltast úr lestinni og samþjöppun geti orðið mikil.
Í lokin sagði Lilja Rafney málefnið vera eldheitt og umdeilt sem þingmenn yrðu að vinna með sem alltaf erfitt þegar mjög ólík sjónarmið rekast á. „Svo sjáum við bara til hvernig okkur gengur að lenda því.
Lilja Rafney sagði að sínum huga væri kvótasetning vond, horfandi upp á alla þá gífurlegu samþjöppun sem hefur orðið. Það hefði ekki reynst byggðunum vel.
Kristján Þór Júlíusson lagði áherslu á að samþjöppun hefði verið mikil í núverandi kerfi, bátunum hefði fækkað um 150 á síðastliðnum tíu árum og yrðu komnir niður í 50 eftir jafnlangan tíma miðað við hvernig þróunin hefði verið.
Kristján Þór sagði stærsta málið varðandi frumvarpið að verið væri að gefa þeim sem stunduðu grásleppuveiðar tækifæri til að búa til meiri verðmæti fyrir sjálfa sig og samfélagið allt, hvorutveggja í formi fjármuna en ekki síður til aukins öryggis með því að sækja sjóinn og með ábyrgari hætti varðandi umgengni um auðlindina í stað þeirrar sóunar og illu umgengni sem viðgengst í núverandi kerfi.
Frumvarpið er nú til meðferðar hjá atvinnuveganefnd sem kallað hefur eftir athugasemdum við það.