Eins og fram hefur komið er nú til meðferðar í atvinnuveganefnd Alþingis frumvarp til laga um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða, atvinnu- og byggðakvótar. Frumvarpið tekur til aflaheimilda, sem dregnar eru frá leyfilegum heildarafla áður en þeim er úthlutað samkvæmt aflahlutdeild – 5,3%. Mikilvægt er að atvinnuveganefnd geri tillögur um breytingar á frumvarpinu þannig að veiðiréttindi smábáta verði aukin gegnum strandveiðar, línuívilnun og byggðakvóta, en ekki skert eins og lagt til.
Landssamband smábátaeigenda veitti umsögn um frumvarpið. Í henni er farið ítarlega yfir efni þess ásamt því að beina kastljósinu að áhrifum verði engar breytingar verði gerðar.
Í upphafi umsagnar segir eftirfarandi:
Aðalfundur LS mótmælir þeim hugmyndum harðlega sem kynntar eru í nýju frumvarpi um atvinnu- og byggðakvóta um að festa strandveiðar inn í „heildarpotti sem tekur mið af aflamarkskerfinu. Með því er verið að þvinga sóknarmarksfyrirkomulag strandveiðanna inn í aflamarkskerfið.
Óbreytt til 1. september 2027
LS mótmælir harðlega tillögum um óbreytta hlutdeild aflaheimilda til næstu 6 ára.
„Slíkt leiðir til stöðnunar og værukærðar og hamlar allri framþróun þeirra þátta sem hér eru undir. Með slíku yrði í raun komið á beinni tengingu við aflamarkskerfið og sölu veiðiheimilda og framsali á samningum.Helstu röksemdir eru hversu kvik fiskveiðistjórnunin er og reynsla undanfarinna ára hefur sýnt að milljóna tjón getur hlotist á stuttum tíma þegar ekkert svigrúm er í lögum til að bregðast við breytingum í útgerð. T.d. að auka vægi umhverfisvænna veiða og svara kalli markaðarins um fisk frá dagróðrabátum. Aflaheimildir færast til stærri útgerða – t.d. í gegnum byggðakvóta.Undanfarin þrjú ár hafa strandveiðar sótt í sig veðrið. Þátttakendum hefur fjölgað og allt bendir til þess að svo verði áfram. Óhjákvæmilegt er því, þegar lagt er af stað með breytingar á lögum, að tekið verði tillit til þess., eins og segir í umsögn LS
Hvað er verið að leggja til?
Hefðu breytingarnar komið til framkvæmda á yfirstandandi fiskveiðiári væri útkoman þessi:
- Í stað 10 þúsund tonna leyfilegs þorskafla við strandveiðar í sumar yrði aðeins heimilt að veiða 9.200 tonn. Þorskafli á strandveiðum 2020 var 10.750 tonn.
- Lokað yrði fyrir millifærslu frá línuívilnun til strandveiða.
- Dregið verður úr öryggi sjómanna við strandveiðar.
- Heimilt verður að stunda veiðar alla daga vikunnar sem er ávísun á stöðvun veiða í hverjum mánuði á flestum svæðum. Það hefði í för með sér tilheyrandi kapp við að ná dögum áður en lokað yrði. Jafnframt er sókn alla daga vikunnar ávísun á lægra aflaverðmæti.
Tryggja verður 48 daga til strandveiða
Í umsögninni segir
LS mótmælir harðlega öllum tillögum þar sem vegið er að strandveiðum og skorar á háttvirta atvinnuveganefnd að halda áfram að þróa strandveiðikerfið í átt að því að tryggja með lögum 48 daga til strandveiða.Að öllum sem stunda strandveiðar verði tryggðir 12 dagar þá mánuði sem veiðarnar eru heimilaðar. Heildarfjöldi veiðidaga á strandveiðum 2021 verði 48.
Línuívilnun verði efld
LS hefur til nokkurra ára hvatt til þess að línuívilnun gildi fyrir alla dagróðrabáta og bent á að þær heimildir hafi ekki nýst að fullu og því hafi ekki skort aflaheimildir til að verða við tillögunum. Svör ráðuneytisins hafa verið á þá leið að verið sé að endurskoða 5,3% heimildirnar og því verði ekki orðið við því. Það kom því á óvart mitt í vinnu starfshópsins að ráðherra skyldi koma með inngrip sem fólst í að minnka stórlega aflaviðmið til línuívilnunar og að þær skyldu skerðast um þúsundir tonna.
Í umsögninni mótmælir LS harðlega ákvæði frumvarpsins að ónýttur afli í línuívilnun leggist við byggðakvóta og þar með að færa þær frá útgerðum dagróðrabáta og setja þær inn í aflahlutdeildarkerfið.
Aðalfundur LS skorar á stjórnvöld að breyta ákvæði laga um línuívilnun þannig að hún gildi fyrir alla dagróðrabáta minni en 30 brúttótonn og styttri en 15 metrar. Verði 30% við landbeitningu, 20% við uppstokkun og 10% fyrir vélabáta.
Byggðakvóti verði í formi löndunarívilnunar
Á aðalfundi LS var nú sem endranær mikil og sterk umræða um byggðakvóta. Hann verði nýttur af dagróðrabátum minni en 30 brt. með löndunarívilnun og greiðslutrygging verði sambærileg og hjá fiskmörkuðum.
Orðrétt úr umsögninni
Aðalfundur LS leggur til að heimildir til byggðakvóta verði notaðar við atvinnufiskveiðar og úthlutað til sveitarfélaga samkvæmt reglum sem mótaðar hafa verið. Rétt til nýtingar byggðakvóta hafa dagróðrabátar minni en 30 brt sem skráðir eru í viðkomandi byggðarlagi ásamt útgerð þeirra og eru gerðir þaðan út, enda hafi viðkomandi uppfyllt framangreint á næstliðnu fiskveiðiári.Byggðakvóti verði ívilnun á aflaheimildir við löndun með sama hætti og um línuívilnun. Auk þess verði allt að 10 tonn eyrnamerkt til útgerða þar sem eigandi hefur átt heimilisfesti í byggðarlaginu síðastliðin þrjú ár.Þar sem ekki er fiskvinnsla eða vinnsla sem neitar að taka við aflanum skal hann boðinn upp á fiskmarkaði. Fiskvinnsla í viðkomandi byggðarlagi hefur forkaupsrétt að afla þeirra báta sem njóta byggðaívilnunar. Greiðslufyrirkomulag og greiðslutrygging skal vera með sama hætti og hjá aðilum sem kaupa af fiskmörkuðum.
Varasjóður
LS lýsir andstöðu við stofnun varasjóðs. Andstaðan liggur aðallega í tortryggni varðandi reglur um úthlutun. Þar er megin uppistaða eftirtalin orðanotkun (lbr. LS):
sem geta haft neikvæð byggðaáhrif, vegna verulegra breytinga á aflamarki, ráðherra getur gert samninga við fiskvinnslur.
Í stað varasjóðs verði aflaheimildum sem til hans eru ætlaðar bætt að jöfnu við línuívilnun og til strandveiða.
Skel- og rækjubætur
LS leggur til að greiðslur nái ekki til báta sem hafa verið seldir eða bætur fluttar gegn greiðslu til annarra. Það sama á við þegar bætur hafa ekki verið fullnýttar með veiðum.
LS er hins vegar sammála að öðrum útgerðum verði greiddar bætur. Í því sambandi er nauðsynlegt að skipa nefnd t.d. undir forystu Byggðastofnunar sem leggi mat á hversu tjón þeirra er við afnám aflaheimilda. Jafnframt að leggja mat hvort bætur verði í formi varanlegra aflaheimilda eins tillaga er um. LS vekur athygli á að verðgildi 1.482 þorskígilda skiptir milljörðum og því afar mikilvægt að vandað sé til verka.