Þorskur ekki lengur í skiptum fyrir loðnu

Samkvæmt reglugerð sem birtist í Stjórnartíðindum fyrr í dag verður óheimilt að bjóða krókaaflamark í skiptum fyrir loðnu á skiptimarkaði Fiskistofu.
Bráðabirgðaákvæði hefur verið bætt við reglugerð um veiðar í atvinnuskyni sem orðast svo:
„Óheimilt er að bjóða krókaaflamark í skiptum fyrir loðnu á skiptimarkaði 
samkvæmt 6. mgr. 8. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.
Eins og fram kom hér á síðunni voru 732 tonn af þorski úr krókaaflamarkskerfi boðin í skiptum fyrir 1.066 tonn af loðnu.  LS gerði athugasemd við að Fiskistofa hefði tekið tilboðinu og vakti í kjölfarið athygli ráðherra á málinu.  
Fiskistofa túlkaði tilboðið þannig að ekki væri ákvæði í reglugerð sem bannaði að því yrði tekið né að loðnan væri flutt yfir á krókaaflamarsksbátinn.  Að lokinni þeirri færslu var loðnan flutt yfir á uppsjávarskip. 
Með undirritun reglugerðarinnar hefur Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðar-
ráðherra komið í veg fyrir að framhald verði á slíku útstreymi þorsks úr krókaaflamarkskerfinu.