Fimmtudaginn 4. mars sl. birtist grein í Fiskifréttum eftir Örn Pálsson.
Ýsan vanmetin
Bæta þarf strax við heimildum
Vorrall Hafrannsóknastofnunar er nýhafið. Niðurstöður rallsins 2020 sýndu að ýsustofninn er í góðu ásigkomulagi. Samkvæmt aflareglu ráðlagði stofnunin um 9% aukningu frá fiskveiðiárinu 2019/2020.
Úr skýrslu stofnunarinnar í desember sl. (haustrall) er meðaltal aldursskiptra vísitalna í fjölda næst liðinna sjö árganga í ýsu 2014 til og með 2020 rúmum fjórðungi hærra en tímabilið 1999 – 2005. Ráðlagður heildarafli nú er hins vegar aðeins 45.389 tonn en var fiskveiðiárið 2005/2006 – 105.000 tonn. Jafnframt er meðalþyngd allra þeirra árganga sem nú er verið að veiða yfir langtíma meðaltali.
Það sem hér er dregið fram hefur skilað sér í auknum afla á sóknareiningu undanfarin ár og er sá helmingur sem liðinn er af yfirstandandi fiskveiðiári ekki undan skilin. Vek athygli á tölum úr tækniskýrslu Hafró maí 2020. Þar ættu lesendur að mæna á punktalínuna sem sýnir aflabreytingu á sóknareiningu hjá skipum þar sem ýsuafli er yfir 50%.
Það sem hér er dregin upp mynd af sýnir óumdeilt hvernig ástandið er á miðunum. Það er því óskiljanlegt að við ákvörðun um leyfilegan heildarafla skuli slíkt ekki telja með. Í skýrslunni segir:
„Afli ýsu á sóknareiningu er ekki notaður sem mælikvarði á stærð ýsustofnsins þar sem breytingar á samsetningu flotans og veiðarfærum eru ekki teknar með í útreikningum á afla á sóknareiningu.
Oftsinnis heyrist sú skoðun frá sjómönnum að þeir telji Hafrannsóknastofnun vera á eftir upplifun þeirra á ástandi einstakra fiskistofna. Það sem hér hefur verið vakin athygli á gæti verið ein af ástæðum þess.
Alls staðar góð ýsuveiði
Myndin sýnir útbreiðslu ýsu í haustralli.
Ýsuveiði það sem af er þessu fiskveiðiári hefur verið afburða góð. Það á ekki aðeins við smábáta sem yrkja grunnslóðina, nánast hvar sem dýft er veiðist ýsa. Aflatölur sem hér birtast eru unnar upp úr bráðabirgðatölum Fiskistofu.
|
2020/2021 að 1. mars |
2019/2020 að 1. mars |
Aukning milli ára |
Togarar |
14.188 tonn |
10.327 tonn |
37,3% |
Aflamarksskip |
9.135 tonn |
7.962 tonn |
14,7% |
Krókabátar |
8.729 tonn |
6.684 tonn |
30,5% |
Samtals |
32.155 tonn |
25.150 tonn |
27,8% |
Rétt er að benda hér á að nánast allir sem á þorskveiðum eru reyna að forðast þær slóðir sem von er á að ýsan haldi sig. Þrátt fyrir það eru aukningin eins og hér hefur verið greint frá.
Málið þolir enga bið
Nú er fiskveiðiárið hálfnað og staða margra útgerða farin að þrengjast. Í krókaaflamarkinu eru búið að veiða um fjórðungi meira en það sem bátarnir fengu úthlutað samkvæmt aflahlutdeild. Með því að skipta þorski út fyrir ýsu úr aflamarkskerfinu hafa þeir aukið heimildir um 1.655 tonn. Þrátt fyrir það eru aðeins þúsund tonn eftir sem endast verður til loka fiskveiðiársins. Sambærilegur vandi er í aflamarkskerfinu, 11 þúsund tonn óveidd.
Fyrirsjáanlegt er að fjölmargar útgerðir, jafnt stórar sem smáar þurfa að óbreyttu að stöðva veiðar á næstunni. Við því þarf ráðherra að bregðast með því að bæta strax við heimildum en ekki bíða með það til 1. september.
Höfundur er framkvæmdastjóri
Landssambands smábátaeigenda