Grásleppuvertíðin hafin

Alls höfðu 18 bátar fengið heimild til að hefja grásleppuveiðar á fyrsta degi í grásleppu. Þriðjungur bátanna gera út frá Ólafsfirði, 3 frá Árskógssandi og 2 frá Dalvík.  Aðrir röðuðu sér jafnt á eftirtalda staði:  Bakkafjörður, Grímsey, Grenivík, Akureyri, Hólmavík, Drangsnes og Patreksfjörður.
Samanburður við síðasta ár er nokkuð erfiður því þá mátti byrja veiðar 10. mars.  Vertíðin var þá komin á nokkurt skrið þann 23. mars og 53 bátar þá farnir til veiða.
Vertíðin nú er hlaðin óvissu þar sem kaupendur og umsýsluaðilar með grásleppuhrogn hafa enn ekki gefið út verð eða hversu mikið magn þeir þurfa að fá til sín.  Búkurinn sem undanfarnar vertíðir hefur skilað góðu verði er verðlaus í dag sökum mikilla birgða í Kína frá síðustu vertíð.  Af þeim sökum og ýmsum öðrum orsökum verður ekki skylt að landa grásleppunni á vertíðinni og líklegt að þeir sem hafi aðstöðu til muni skera hana úti á sjó.
Aflaverðmæti á vertíðinni 2020 nam um 1,2 milljörðum og útflutningsverðmæti um 2,45 milljörðum.  Þar af var verðmæti frystrar grásleppu 502 milljónir, hrognin skiluðu 670 milljónum og grásleppukavíar um 1,3 milljörðum.
Útflutningsverð hrogna af síðustu vertíð var afar misjafnt eftir mánuðum.  Þar sem magnið var í tonnum talið var hæsta verðið í júní 2.192 kr/kg (230 þúsund tunnan), en lægst í maí 1.295 kr/kg (136 þúsund).  Verð að meðaltali fyrir grásleppuhrogn á árinu 2020 var 1.721 kr/kg (181 þúsund).
Samkvæmt reglugerð um hrognkelsaveiðar 2021 eru útgefnir dagar til veiða 25.  Þeir sem lögðu í dag hafa því gilt leyfi til og með 16. apríl.   Hafrannsóknastofnun mun kynna ráðgjöf sína 31. mars og ráðherra í kjölfarið ákveða hver heildaraflinn verður.  Vel verður fylgst með gangi veiða með það að markmiði að allir sem taka þátt í veiðunum fái jafnmarga daga.
210323.jpg