Á ársfundi Gildis-lífeyrissjóðs verður borin upp ályktun frá Erni Pálssyni framkvæmdastjóra LS um að fela stjórn sjóðsins að hefja viðræður við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, Lífeyrissjóð verslunarmanna og Birtu lífeyrissjóð um stofnun stýrihóps um erlendar fjárfestingar.
Tillögunni er ætlað að opna fyrir samstarf meðal þessara fjögurra stærstu lífeyrissjóða landsins. Fyrsta skrefið í því er að skoða möguleika á stofnun slíks hóps sem myndi móta stefnu og hafa umsjón með fjárfestingum erlendis.
Gríðarlegir hagsmunir eru undir og því nauðsynlegt að skoða alla kosti þessa mikilvæga þáttar. Líklegt er að stærri pakki gefi betri tækifæri og með honum opnist jafnframt möguleikar á að lækka kostnað við umsýsluþóknanir.
Í ársskýrslu Gildis 2020 kemur fram að greiddir voru 1,8 milljarðar í umsýsluþóknanir til erlendra sjóða, sem var 0,76% af kostnaðarhlutfalli meðaltalseigna – 237 milljörðum. Á árinu 2018 var kostnaðurinn hins vegar 1,1 milljarðar og hlutfallið 0,70% af 154 milljörðum. Hlutfallið 2019 var 0,80%.
Við skoðun á fjórum stærstu lífeyrissjóðunum var Birta með lægst hlutfallið árið 2019, 0,7%, en hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins var það hæst 1,04%. Ársreikningar fyrir árið 2020 hjá Birtu og LSR hafa ekki verið birtir, en gera má ráð fyrir að greiðsla sjóðanna fjögurra vegna ávöxtunar erlendis verði á bilinu 7 til 8 milljarðar.