Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur undirritað breytingu á reglugerð um hrognkelsaveiðar árið 2021. Þar er veiðidögum fækkað um 5, verða 35 í stað 40. Breytingunni er ætlað að tryggja öllum sem stunda grásleppuveiðar jafn marga daga.
Að lokinni löndun í gær, sumardaginn fyrsta, var veiðin komin í 2.815 tonn hjá 123 bátum sem byrjaðir voru. Veiði á dag á vertíðinni sem hófst þann 23. mars slær öll fyrri met 1.342 kg, en á sama tíma í fyrra var hún 750 kg.
Sigurey ST er eins og fyrr aflahæst með 74.656 kg. Alls eru 9 bátar komnir með meira en 50 tonna afla, 17 með yfir 40 tonn og 30 tonna markinu hafa 32 bátar náð.
Verði aflabrögð áfram með sama hætti og 150 bátar taki þátt í veiðunum má áætla að afli þeirra verði um sjö þúsund tonn eða það sem leyfilegt er að veiða á öllum svæðum að undanskildum svæði B. Á því svæði er leyfilegur heildarafli 1.988 tonn.